Erlent

Konungurinn fer fram á öryggisúttekt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Konungur Sádí Arabíu hefur farið fram á að gerð verði öryggisúttekt á Hajj, trúarhátíð múslima í Mekka, þar sem að minnsta kosti 717 pílagrímar létu lífið í troðningi í dag. Um er að ræða mannskæðasta slys í Mekka í 25 ár.

Alls slösuðust 863 á hátíðinni en talið er að á þriðju milljón hafi tekið þátt í henni. Mannskæður troðningur er tíður við þessa athöfn, en eftir stórslysin árið 2004 og 2006 voru öryggismál tekin í gegn.

Salman konungur sagði að mikil þörf væri á að bæta skipulag og annars konar framkvæmd við þessa athöfn. Því hafi stjórnvöld ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að rannsaka atvikið.

Khaled al-Falih, heilbrigðisráðherra Sádí Arabíu, virtist þó ekki á því að rannsaka þyrfti atvikið, ástæðan hafi verið að of margir pílagrímar hefðu haldið för sinni áfram án þess að virða tímatöflu athafnarinnar.

Þá hefur Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, sagt að um hafi verið að ræða framkvæmdar- og stjórnleysi og krefst þess að stjórnvöld í Sádí Arabíu axli ábyrgð.


Tengdar fréttir

453 pílagrímar látnir í Mekka

Talsmenn sádi-arabískra yfirvalda hafa staðfest að 453 hafi látist eftir að hafa troðist undir fyrir utan Mekka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×