Erlent

Fengu hundrað krónur á tímann fyrir að framleiða Corbyn-boli

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Corbyn bar sigur úr býtum í kosningum innan Verkamannaflokksins á laugardag.
Corbyn bar sigur úr býtum í kosningum innan Verkamannaflokksins á laugardag. Vísir/EPA
Jeremy Corbyn, nýkjörinn formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi, græddi hundrað þúsund pund eða um tuttugu milljónir íslenskra króna með því að selja sérmerkta boli á meðan á kosningaherferð hans stóð.

Telegraph greinir nú frá því að rómanskir verkamenn sem saumuðu bolina og framleiddu hafi aðeins fengið 49 pens eða um hundrað krónur á klukkutímann í laun.

Starfsmennirnir unnu í verksmiðjum fatamerkisins Gildan í Nikaragúa og Haíti við að framleiða „Team Corbyn“- boli sem Corbyn seldi á vefsíðu sinni fyrir tíu pund.

Mail on Sunday greindi frá því að starfsmennirnir í Nikaragúa hefðu fengið 101 pund í mánaðarlaun sem jafngildir tæplega tuttugu þúsund krónum.

Corbyn talaði fyrir jöfnuði í sigurræðunni

Í sigurræðu sinni á laugardag fjallaði Corbyn um fátækt.

„Við höfum vaxið gríðarlega vegna þess hversu margir Bretar þrá öðruvísi Bretland, betra Bretland, jafnara Bretland, almennilegra Bretland,“ sagði hann. „Bretar hafa fengið nóg af ójafnrétti og ójöfnuði, óréttlæti og óþarfri fátækt.“

Margarita Robleto, 37 ára gamall starfsmaður Gildan, sagðist eiga erfitt með að fæða börn sín fimm með mánaðarlaunum sínum. „Ég verð reið. Ég fæ svo lítið greitt á mánuði. Öll mánaðarlaun mín myndu duga til að kaupa tíu Corbyn boli.“

Í yfirlýsingu frá Gildan sagði: „Gildan leggur mikið upp úr því að virða alþjóðlega verkamannastaðla. Við greiðum starfsmönnum um það bil lágmarkslaun og göngum úr skugga um að starfsmenn hafi aðgang að heilsugæslum og fái greitt aukalega fyrir mat og samgöngur.“

Telegraph náði ekki í Corbyn við vinnslu fréttar sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×