Enski boltinn

Fjögur ár frá félagsskiptunum sem breyttu svo miklu fyrir Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy með Englandsbikarinn og fjölskylduna.
Jamie Vardy með Englandsbikarinn og fjölskylduna. Vísir/Getty
18. maí 2012 keypti Leicester City leikmann frá utandeildarfélaginu Fleetwood Town en enginn gat séð fyrir hvaða þýðingu þessi félagsskipti hafa haft fyrir framtíð Leicester.

Leicester City borgaði Fleetwood Town eina milljón punda fyrir Jamie Vardy sem var metupphæð fyrir leikmann úr ensku utandeildinni. Það höfðu margir efasemdir um kaupin fyrir fjórum árum en þessi fjárfesting hefur heldur betur borgað sig margfalt fyrir Leicester City.

„Ég settist niður með Nigel og eftir það var ljóst að hingað vildi ég koma," sagði Jamie Vardy í viðtali við BBC Radio Leicester fyrir fjórum árum. Hann hafði skorað 31 mark í 36 leikjum fyrir á Fleetwood Town á tímabilinu og var klár í nýja áskorun.

„Ég sá aðstöðuna og hugsaði með sjálfum mér: Ég get sé mig spila hér. Stjórinn vildi líka fá mig sem gerði ákvörðunina enn auðveldari," sagði Vardy.

„Hann sagði mér að hann hefði verið að fylgjast með mér í nokkurn tíma. Ég náði athygli hans og ég hlýt því að hafa verið að gera eitthvað rétt," sagði Vardy í maí 2012.

Jamie Vardy skoraði 20 mörk í 63 leikjum á tveimur tímabilum í ensku b-deildinni og 5 mörk í 34 leikjum á fyrsta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni. Byrjunin var ekkert rosalega en svo small þetta allt saman hjá honum.

Vardy sló síðan í gegn frá fyrsta leik á þessu tímabili, bætti met Ruud van Nistelrooy fyrir áramót með því að skora í ellefu leikjum í röð og endaði sem annar markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 24 mörk í 36 leikjum.

Stóra málið er að hann var lykilmaðurinn á bak við það að Leicester City, sem rétt slapp frá falli tímabilið á undan, stóð uppi sem enskur meistari í fyrsta sinn. Leicester City vann ekki bara titilinn heldur vann hann örugglega.

Jamie Vardy var kosinn leikmaður ársins af enskum fjölmiðlamönnum. Það hefur verið mikið um fögnuð hjá Leicester City að undanförnu en það er full ástæða til að halda upp á þennan mikilvæga dag í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×