Matthías kom til Rosenborg frá Start í júlí 2015. Hann hefur reynst norska stórliðinu drjúgur en hann hefur leyst svo til allar stöður á vellinum síðan hann kom til Rosenborg.
„Þetta var auðveld ákvörðun. Mér líður mjög vel í Þrándheimi og Rosenborg er frábært félag. Ég hlakka til að mæta á hverja einustu æfingu og hef ekki upplifað áður svona samheldni eins og er í leikmannahópnum hér,“ segir Matthías í frétt á heimasíðu Rosenborg sem hefur orðið tvöfaldur meistari í Noregi undanfarin tvö ár.
Matthías lék 29 deildarleiki með Rosenborg á síðasta tímabili og skoraði fimm mörk og gaf tvær stoðsendingar. Hann var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum Rosenborg.
Matthías, sem er frá Ísafirði, lék með FH áður en hann gekk til liðs við Start 2012. Hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með FH og tvisvar sinnum bikarmeistari.
Þrír Íslendingar eru á mála hjá Rosenborg en auk Matthíasar leika þeir Hólmar Örn Eyjólfsson og Guðmundur Þórarinsson með liðinu.