Skoðun

Ólafur fer enn fram

Haukur Sigurðsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú gert heyrinkunnugt að hann ætli enn einu sinni að bjóða fram starfskrafta sína sem forseti Íslands. Aftur eru óvissutímar líkt og 2012 og þess vegna getur hann boðið sig fram á fjögurra ára fresti það sem hann á eftir ólifað. Óvissa mun ríkja í öllum þjóðfélögum samtímans eins og sjá má þegar litið er yfir veröldina.

Hann nefndi í ávarpi sínu á Bessastöðum hin fjölmennu mótmæli á Austurvelli, en ekki var ljóst í máli hans hvort hann teldi að þau væru til marks um upplausn í þjóðfélaginu eða að þar mætti greina þjóðarsálina. Í huga hans gæti hafa verið ótti við svipaðar afleiðingar og urðu af mótmælunum 2008-9 sem leiddu af sér vinstri stjórn sem var honum ekki að skapi. Er sama hætta á ferðinni nú? Þetta hljómar eins og afsökun fyrir framboði. Aðalástæðan er að hann langar til að vera áfram forseti og sér í hendi sér að hann gæti látið margt til sín taka ef óvissan er svona mikil.

Þá er runnin upp stundin til að eyða allri óvissu sem hrjáir forseta. Stjórnarandstöðuflokkarnir verða að tala markvisst saman, ná samstöðu í meginmálum þjóðarinnar, móta sér sameiginlega stefnu fyrir næstu kosningar. Þjóðin kallar á sameiginlegan lista sem setur á oddinn að draga fram stjórnarskrá stjórnlagaráðs, ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina og gerbreyta um stefnu í heilbrigðismálum svo að eitthvað sé nefnt.

Verði Ólafur Ragnar enn kjörinn forseti mun hann þurfa að mæta slíkri ríkisstjórn sem gengur samhent fram með þjóðarfylgi að baki sér. Þá verður hann verkefnalaus á þessu sviði. Hann fær ekki að fást við stjórnarmyndun ósamstæðra flokka þar sem hann getur möndlað um, fært til hér og tekið þar. Til fundar við hann gengur samhent ríkisstjórn af einum lista. Þá verður Ólafur Ragnar Grímsson í vanda staddur.




Skoðun

Sjá meira


×