Erlent

Skref í átt að sjálfstæði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Liðsmenn Peshmarga-sveita kúrda í norðurhluta Íraks á eftirliti í skotgföfunum suður af Kirkuk.
Liðsmenn Peshmarga-sveita kúrda í norðurhluta Íraks á eftirliti í skotgföfunum suður af Kirkuk. Nordicphotos/AFP
Stjórnvöld í Bagdad eru farin að hafa áhyggjur af ógnarlangri skotgröf sem Kúrdar hafa verið að grafa til að verjast sjálfsvígsárásum frá vígasveitum DAISH-samtakanna.

Kúrdasvæðin í norðri hafa í reynd fengið töluvert sjálfræði innan Íraks, enda hefur stjórnin í Bagdad varla mikið bolmagn til að láta neitt til sín taka þar meðan átökin við DAISH halda henni upptekinni sem og önnur ólga í landinu.

Kúrdar hafa lengi látið sig dreyma um sjálfstætt ríki í norðurhluta Íraks, og helst næði það yfir suðaustanvert Tyrkland líka og jafnvel norðausturhluta Sýrlands. Kúrdar búa á öllu þessu svæði, sem þeir kalla Kúrd­istan.

Kúrdum í Írak hefur gengið mun betur en stjórninni í Bagdad að verjast DAISH-samtökunum, og ráða þeir nú eigin málum að mestu leyti sjálfir án aðkomu stjórnarinnar í Bagdad.

„Tilgangur skotgrafarinnar er að byggja upp varnarkerfi gegn ökutækjum sem DAISH-hryðjuverkamenn nota til að sprengja bílsprengjur,“ hafði íranska fréttastofan PressTV nýlega eftir Jabar Jawar, talsmanni Peshmarga-sveitanna, sem eru hersveitir Kúrda í Írak.

„Hún er tveggja metra djúp og þriggja metra breið. Hún er ekki alls staðar, því á sumum svæðum er hún óþörf.“

Hashem Seteh, yfirmaður í Pesh­marga-sveitunum, segir ekki koma til greina að gefa eftir neitt af þeim svæðum sem Kúrdar hafa rekið DAISH-liða frá: „Ef stjórnin í Bagdad gerir nú tilkall til þessara svæða, hvers vegna sendi hún þá ekki einn einasta hermann til að taka þátt í bardögunum?“ spyr hann í viðtali við breska útvarpið BBC.

Fleiri þjóðernishópar búa á þessum svæðum, sem skotgröfin liggur um. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×