Enski boltinn

Sheffield Wednesday í úrslitaleikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikmenn Sheffield fagna.
Leikmenn Sheffield fagna. vísir/getty
Sheffield Wednesday er komið í úrslitaleik um síðasta lausa sætið í ensku úrvalsdeildinni en liðið hafði betur í undanúrslitum umspils B-deildarinnar gegn Brighton.

Miðvikudagsliðið vann 2-0 sigur á heimavelli sínum í fyrri leiknum en var heppið að vera ekki þrjú til fjögur núll undir eftir fyrri hálfleikinn í kvöld.

Brighton spilaði algjörlega frábærlega og átti að skora haug af mörkum. Lewis Dunk var sá eini sem kom boltanum í netið á 19. mínútu og staðan 1-0.

Wednesday jafnaði metin á 28. mínútu en þrátt fyrir fjölda færa voru ekki fleiri mörk skoruð og komst Sheffield-liðið því í úrslitaleikinn með samanlögðum 3-1 sigri.

Sheffield Wednesday spilaði í úrvalsdeildinni frá stofnun hennar 1992 til ársins 2000 þegar liðið féll niður í B-deildina. Það hefur tvisvar sinnum fallið í C-deildina en eygir nú möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina eftir 16 ára fjarveru.

Í hinum undanúrslitaleiknum eigast við Hull og Derby en þar hefur Hull 3-0 forskot eftir fyrri leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×