Innlent

Vís greiðir 1,3 milljarða í bætur til Lífsverks

Ásgeir Erlendsson skrifar
Vátryggingafélagið VÍS var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmt til að greiða tæpa 1,3 milljarða króna í bætur vegna fjárfestinga fyrrverandi stjórnar Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Núverandi stjórnarformaður sjóðsins segir jákvætt að stjórnendatrygging haldi fyrir dómi.

Lífeyrissjóðurinn Lífsverk sem áður hét Lífeyrissjóður verkfræðinga stefndi Vátryggingarfélaginu Vís og fyrrverandi stjórnendum sjóðsins vegna tveggja fjárfestinga árið 2008 sem fólu í sér afleiðusamniga. Fjárfestingin varð til þess að sjóðurinn tapaði um þriðjungi eigna sinna. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kemur fram að einungis sé heimilt að gera afleiðusamninga sem draga úr áhættu lífeyrissjóða.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á að fyrrverandi stjórnendur sjóðsins hefðu farið út fjárfestingarheimildir sínar og dæmdi því VÍS til að greiða 853 milljónir í bætur með dráttarvöxtum eða samtals 1,3 milljarða króna. Fyrrverandi stjórnendurnir voru dæmdir til að greiða 36 milljónir. Þráinn Valur Hreggviðsson, núverandi stjórnarformaður Lífsverks, segir jákvætt að stjórnendatrygging haldi fyrir dómi.

„Skoðun okkar, þeirra sem komu inn eftir að skipt var um stjórn 2010, var sú að þetta hefði verið gjörningur sem ekki væri leyfilegur samkvæmt lögum. Þetta væru afleiður sem hefðu verið keyptar. Það samræmist ekki lögumá meðan þær þær eru ekki keyptar til að draga úr áhættu.“

VÍS hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar og Þráinn vonast til að dómurinn verði staðfestur.

„Að sjálfsögðu vonumst við til þess og við trúum á það. Annars hefði ekki verið lagt upp í þetta ferðlag sem við vissum svo sem alltaf að myndi halda áfram alla leið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×