Skoðun

Gróði en ekki græðgi

Björgvin Jón Bjarnason skrifar
Jón Björnsson og Andrés Magnússon skrifuðu ágæta grein í Fréttablaðið þann 13. september, þar sem þeir fjölluðu um nýsamþykktan búvörusamning. Um þennan samning eru skiptar skoðanir, eins og eðlilegt má telja.

Rétt er að staldra við þegar kemur að afkomugreiningu þeirra Jóns og Andrésar, en þeir visa í skoðun á ársreikningum í almennri kjötvinnslu, mjólkurvinnslu og hjá framleiðendum svína- og kjúklingakjöts. Það er rétt hjá þeim félögum að afkoma kjötafurðafyrirtækja hefur mjög markast af taprekstri af sauðfjárslátrun og -vinnslu á síðustu árum. Þá hefur afurðavinnsla úr mjólk ekki reynst mjög arðbær á síðustu árum. Ég hef sjálfur afkomu mína af svínarækt.

Afkomutölur af hefðbundnum rekstri svínabúa gefa ekki til kynna að um mjög arðbæra starfsemi hafi verið að ræða á síðustu árum. Einhverjir aðilar í svínarækt reka einnig sláturhús og kjötvinnslur undir sömu kennitölu og má vera að afkoma þeirra félaga gefi aðra mynd, en því fer fjarri að svínabændur reki einhverja fjárplógsstarfsemi. Opinberar tölur gefa til kynna að verð á svínakjöti hérlendis hafi farið hækkandi á liðnum misserum, þótt tekjur okkar svínabænda hafi lækkað. Vegur annarra aðila í virðiskeðjunni virðist því hafa farið vaxandi.

Fyrst vikið er að ársreikningum og afkomugreiningum er ekki úr vegi að skoða ársreikninga íslenskra verslunarfyrirtækja. Meðfylgjandi eru lykilstærðir úr ársreikningum Festa og Haga fyrir reikningsárið sem lauk 28. febrúar 2016 hjá báðum aðilum:

Þetta eru sannarlega hraustlegar tölur og snöggtum betri en þær sem má finna með skoðun á reikningum erlendra verslunarkeðja. Tesco og Sainsbury‘s náðu þannig 6-11% ávöxtun á eigið fé á síðasta reikningsári. Það er e.t.v. ekki að undra að Costco ákveður að Ísland skuli vera þriðja landið í Evrópu sem þeir opna verslun í. Það er þá heldur ekki að undra að íslenskir fjárfestar hafa lagt sig fram um að gera sig gildandi í að selja landsmönnum mjólk og aðrar neysluvörur, þessi ávöxtun eigin fjár er ekki algeng.

Ég get tekið undir með fulltrúum SVÞ að nauðsynlegt er að lagasetning hamli ekki framþróun og ýti undir framleiðniaukningu. Að því leyti er tillaga atvinnuveganefndar Alþingis áhugavert framtak, nauðsynlegt er að raunveruleg stefnumótun liggi að baki jafnvíðtækri samningagerð og gerð búvörusamninga. Skortur á slíkri vinnu er þó engin afsökun fyrir verslun og þjónustu að reka starfsemi sína með allt annarri og betri afkomu en erlendir aðilar í sömu greinum. Þann mun greiðir neytandinn. Þarna virðist spakmælið „gróði en ekki græðgi“ eiga vel við.




Skoðun

Sjá meira


×