Enski boltinn

Shearer: Newcastle hefði átt að skipta fyrr um stjóra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benítez og lærisveinar hans eiga veika von um að bjarga sér frá falli.
Benítez og lærisveinar hans eiga veika von um að bjarga sér frá falli. vísir/getty
Alan Shearer segir að stjórn Newcastle United hafi brugðist of seint við þegar hún rak Steve McClaren og réði Rafa Benítez.

Benítez tók við starfi knattspyrnustjóra Newcastle um miðjan mars og undir hans stjórn hefur liðið náð í 10 stig af 27 mögulegum.

Newcastle er samt sem áður í afar erfiðum málum. Liðið er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 34 stig, einu stigi á eftir Sunderland sem er í sætinu fyrir ofan. Sunderland á hins vegar tvo leiki eftir en Newcastle aðeins einn og með sigri á Everton á miðvikudaginn tryggir Sunderland sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni.

„Það er mjög ólíklegt að Newcastle haldi sér uppi úr þessu og félagið getur bara sjálfu sér um kennt,“ sagði Shearer sem tók við Newcastle þegar átta leikir voru eftir 2009 en tókst ekki að bjarga liðinu frá falli.

„Ég vissi að það var ekki nógu langur tími. Ef ég hefði fengið 4-5 leiki í viðbót tel ég að við hefðum bjargað okkur. Núna fékk Rafa Benítez aðeins 10 leiki til að bjarga Newcastle og ef hann hefði verið ráðinn fyrr væri félagið ekki í þessari stöðu.

„Þetta er of lítið, of seint, aftur. Það tók Rafa fjóra leiki að finna sitt lið og ef það tók heimsklassastjóra eins og hann þetta langan tíma, þá er ljóst að það hefði átt að skipta um stjóra fyrr.

„Ef Newcastle fellur er ekki hægt að klína sökinni á Rafa og það sorglega er að félagið mun eflaust missa hann eftir tímabilið.“

Shearer er goðsögn hjá Newcastle.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×