Erlent

Um þriðjungur aðspurðra Ísraela segja Pútín vera mann ársins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Vísir/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti nýtur töluverðrar hylli í Ísrael ef marka má skoðanakönnun sem framkvæmd var þar í landi á dögunum. Þar var hann útnefndur maður ársins 2015 – og það með nokkrum yfirburðum. Hann hlaut um 30 prósent greiddra atkvæða en næst á eftir kom Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem hlaut um 16 prósent atkvæða.

Könnunin var framkvæmd af miðlunum Jerusalem Post og Ma’ariv Sof Hashavua í lok liðins árs. Úrtakið var þó ekki mjög stórt, um 527 fullorðnir Ísraelar tóku þátt og skekkjumörkin voru 4,3 prósent.

Niðurstöðurnar gefa þó ótvírætt til kynna að Pútín hefur haft töluverð áhrif á Ísraela á árinu – í það minnsta þau 29 prósent sem sögðu hann vera mann síðasta árs. Sem fyrr segir kom Merkel í öðru sæti með 16 prósent atkvæða og þar næst Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem hlaut 15 prósent. Þrjú prósent sögðu Abu Bakr Al-Baghdadi, leiðtoga Íslamska ríksins, vera mann ársins.

Könnunin leiddi einnig í ljós að um helmingur Ísraela telur hryðjuverk vera stærstu ógnina við land sitt á komandi árum. Þá töldu um 67 prósent að Ísrael gæti ekki náð pólitískri lausn á deilunni við Palestínumenn. Þá eru landsmenn vonlitlir um að Íran muni standa við nýsamþykkt kjarnorkusamkomulag – 80 prósent töldu að stjórnvöld í Teheran myndu ekki standa við orð sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×