Erlent

Við höfum ekkert lært af sögunni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, og Þorleifur Arnarsson leikstjóri ræddu það sem hæst bar í fréttum ársins af erlendum vettvangi.
Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, og Þorleifur Arnarsson leikstjóri ræddu það sem hæst bar í fréttum ársins af erlendum vettvangi. vísir/gva
Stuttu fyrir áramótin settust þeir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri, sem er nýbúinn að frumsýna Njálu, stundarkorn niður með blaðamanni á kaffihúsi í miðbænum til að fara yfir sitthvað af öllu því sem hæst bar í erlendum fréttum ársins.

Þorleifur segir að helsta fréttaþema ársins hafi verið tvíþætt, en þó samtengt: „Það er annars vegar flóttamannakrísan í Evrópu og svo þessi uppgangur bæði íhaldsafla, og ekki síður næstum því öfgahægriafla, þetta skringilega sambland af popúlisma og nasjónalisma sem byggir að svo miklu leyti á fáfræði og óupplýstri umræðu en svo sannarlega ekki á staðreyndum. Þessu tengt má svo segja að ljósið í skugganum hafi verið það land sem við tengjum hvað helst við nasjónalisma og nasjónalsósíalisma, Þýskaland, sem er minn heimavöllur.“

Þorvaldur hefur lengi búið í Þýskalandi og segist hafa fylgst grannt með umræðunni þar. Hann segir vini sína hafa brugðist fúslega við ákalli um aðstoð, sumir snúið heim úr sumarbústað til Berlínar að kaupa hluti til að fara með til flóttamanna. Margir þeirra séu líka komnir með flóttamenn inn til sín.

„Þjóðverjar hafa opnað landamæri sín og Merkel leggur allt sitt pólitíska kapítal í þetta, með gríðarlega andstöðu í eigin flokki. Þetta er samfélag sem byggir svo mjög á upplýstri umræðu að óttastjórnmálin ná ekki í gegn nema að mjög litlu leyti og það er pólitísku forustunni að þakka og náttúrlega öflugum fjölmiðlum. Og þetta gerist á meðan við erum næstum því að horfa upp á fasistaumræðu í Bandaríkjunum, sem tekur varla á móti nokkrum manni frá Sýrlandi úr stríðinu sem þeir bera í rauninni ábyrgð á, því þetta fer allt til baka til lygainnrásarinnar í Írak. En maður vonar að þetta sem er að gerast í Þýskalandi verði ofan á, sem maður hlýtur þá að kalla þýska fordæmið.“

Engin krísa í Evrópu

Björn tekur undir að þessi mál hafi verið mjög áberandi á árinu, en varar við því að tala um krísu eða eitthvað þaðan af verra.

„Til að setja þetta í samhengi þá er flóttafólkið sem hefur komið yfir Miðjarðarhafið í kringum milljón en í Evrópu búa alls yfir sjö hundruð milljónir manna. En ef við förum aftur til stríðsins í Írak þá flúðu til dæmis milli þrjár og fjórar milljónir Íraka til Sýrlands sem er alla jafna 20 milljón manna land, og akkúrat núna eru hátt í tvær milljónir flóttamanna í Líbanon sem er alla jafna svona sex milljón manna land. Þegar maður sér þetta í samhengi þá er Evrópa ekki að takast á við neina krísu. Sé pólitískur vilji þá er alltaf hægt að finna einhverjar lausnir,“ segir Björn.

„Einmitt núna,“ bætir hann við, „þegar við sjáum svo mikla mannflutninga að annað eins hefur ekki sést síðan í seinni heimsstyrjöldinni þá hljóta bæði ríkisstjórnir og samfélög að spyrja sig að því hvort við viljum í rauninni horfast í augu við það eftir nokkra áratugi að hafa ekki gert betur núna. Myndirnar frá Ungverjalandi voru til dæmis ógnvekjandi, vægast sagt, og við getum alls ekki látið þetta viðgangast að láta fólk vera á hrakhólum úti um alla Evrópu.“

„Við erum að sjá myndir eins og úr seinni heimsstyrjöldinni. Það er verið að kasta matarpökkum og sprauta á fólkið úr slöngum,“ segir Þorleifur. „Og þetta er birtingarmyndin af Evrópu. Við getum alveg setið hérna á kaffihúsum og haft nóg og allt til alls, en er gjaldið í alvörunni þetta? Auðvitað vonum við að þetta sé bara sjokk sem svo jafnar sig, því hættan er engin. Allar tölur sýna að efnahagslegur ávinningur af innflytjendum er mun meiri en kostnaðurinn af þeim. Auðvitað koma upp einhver aðlögunarvandamál sem þarf bara að takast á við, en við getum ekki látið eins og við séum bara litlir lokaðir ættbálkar eins og á 19. öld.“

Björn, sem starfar hjá Rauða krossinum, segir að verkefni samtakanna krefjist stundum undarlegra hluta, eins og að nú hafi norski Rauði krossinn þurft að senda starfsmenn, bæði lækna og hjálparteymi, til Berlínar til að sinna flóttafólki þar: „Þetta er í fyrsta skipti frá seinni heimsstyrjöldinni sem Rauði krossinn hefur þurft að senda hjálparteymi til Evrópu, og það er mjög furðulegt. En það er verið að taka þarna á móti fólki sem er hrakið og hefur verið á vergangi kannski í margar vikur. Þetta fólk þarf á sálfélagslegri aðstoð að halda og jafnvel læknisaðstoð líka.”

Galin hugmynd

Hryðjuverkin í Evrópu hafa ekki síður verið áberandi í fréttum ársins. Evrópa hefur verið í áfalli þótt í raun sé mannfallið lítið miðað við þær hörmungar sem ganga yfir fólk í Mið-Austurlöndum.

„Það er mjög skiljanlegt að þetta sé sjokkerandi,“ segir Björn. „Flestir af minni kynslóð hafa til dæmis farið til Parísar oftar en einu sinni. Sjálfur er ég mikill Parísarmaður og hefði ég verið í París á föstudagskvöldi þá hefði ég verið á nákvæmlega þessum stað. Þetta eru hverfin mín, og í þessi hverfi þar sem hryðjuverkin áttu sér stað býr líklega skilningsríkasta og opnasta fólkið gagnvart bara hverju sem er. Og kannski var það nákvæmlega markmiðið að skapa einhverja sundrungu meðal þessa fólks, sem ég held samt að hafi ekki tekist. Ætli það sé ekki frekar fólk sem er innilokað einhvers staðar annars staðar sem er mjög óttaslegið.“

„Auðvitað var þetta mjög sjokkerandi,“ segir Þorleifur.

„Vinur minn til dæmis er tónlistarmaður og spilar á Bataclan tvisvar á ári. Ég náði ekki í hann fyrr en seint um nóttina. En það sem var meira sjokkerandi fyrir mig voru viðbrögðin. 2001 lýsa Bandaríkin yfir stríði gegn hryðjuverkum, sem er bara eins og að lýsa yfir stríði gegn norðanvindinum. Þetta er algerlega galin hugmynd og nú koma Frakkar, sem brugðust við Charlie Hebdo árásinni með samúð og samstöðu, eins og Norðmenn gerðu eftir Útey, en bregðast svo í annað skiptið. Því nú er Hollande undir pólitískri pressu og þarf að kaupa sér vinsældir. Hann byrjar á að lýsa yfir stríði gegn einhverjum hryðjuverkasamtökum og neyða alla vini sína með á samúðinni. Þannig að ef það er frétt í þessu þá er hún það að við lærum ekki af sögunni. Frakkar, sem stóðu uppi í hárinu á Bandaríkjunum árið 2003, eru í rauninni að endurtaka sömu mistökin.“



Mikilvægasta frétt ársins

Þorleifur nefnir svo að loftslagssamningurinn, sem gerður var í París undir lok ársins, sé kannski mikilvægasta frétt ársins: „Við erum þarna mögulega að átta okkur á því að fjallsbrúnin, sem við erum að keyra fram af, er í alvörunni frekar há.“

Björn tekur undir þetta, en bætir við að svipaðir samningar hafi auðvitað verið gerðir áður: „Nú þurfum við bara að bíða og sjá hvort staðið verði við stóru orðin.“

Gamlir jálkar

Fjölmargir aðrir stórir viðburðir hafa ratað í fréttir ársins, svo sem jarðskjálftinn mikli í Nepal, tímamótakosningar í Mjanmar og svo kosningaárið mikla í Grikklandi.

Björn nefnir líka hinn nýja forsætisráðherra í Kanada, Justin Trudeau, sem hefur hrist verulega upp í hlutunum bæði heima fyrir og á heimsvísu.

„Það er líka skemmtilegt á þessu ári að kosningar í Bretlandi hafi orðið til þess að Ed Miliband hætti og þá erum við komin með Corbyn, sem er mjög spennandi stjórnmálamaður. Svo erum við með svipaðan mann í Bandaríkjunum, Bernie Sanders. Þetta eru tveir jálkar, gamlir hippar, en samt einhvern veginn á svipaðri bylgjulengd og Trudeau. Ég held að verði mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu breytta stjórnmálalandslagi. Þessum týpum sem eru miklir umhverfisverndarsinnar, láta sig kvenfrelsisbaráttuna miklu varða og reyna að verja þá sem veikari eru í löndum þar sem er mjög óbeislað markaðshagkerfi.“

„Já, það er held ég að verða einhver stór breyting í heiminum,“ segir Þorleifur. „Ég veit samt ekki hvort þessir menn séu endilega með svarið. Mér finnst gaman að fylgjast með Bernie Sanders, og mér finnst líka gaman að fylgjast með Corbyn í Bretlandi. En þetta er ofboðslega skrítið að horfa til manna sem eru undir áttræðu til að horfa fram á veginn.“

„En þetta er sannarlega búið að vera mjög áhugavert kosningaár,“ heldur Þorleifur áfram. „Í Bretlandi tekur íhaldið við og hótar að taka Bretland út úr Evrópusambandinu. Í Grikklandi tekur við harðkjarnavinstriflokkur sem er bara stillt upp við vegg af Evrópusambandinu, það er búinn til samningur, þeir bakka, losa sig við öfgafyllstu öflin en halda í raun og veru völdum. Í fyrsta skipti í mörg ár, held ég, er Grikkland nokkurn veginn að komast á beinu brautina, þótt auðvitað taki það mörg ár að byggja upp aftur.“

Ebólan farin

Björn segir einnig ástæðu til nefna þá jákvæðu frétt að Gínea sé nú laus við ebólu: „Þá eru öll þessi þrjú lönd, líka Líbería og Síerra Leóne, laus við ebóluna. Þetta var stóra fréttamálið í fyrra og það er mjög ánægjulegt að við höfum rétt náð að útkljá það fyrir áramótin.“

Þorleifur segist hafa fylgst grannt með og grúskað í Volkswagen-málinu: „Sjálfur er ég mjög hrifinn af Þjóðverjum. Þetta er bara svo merkilegt að eitt af traustustu fyrirtækjum heims hafi verið staðið að slíkri heimsku. Stóru fyrirtækin eru stundum alveg jafn vitlaus og einhverjir smákrimmar. Hvernig geta menn í alvöru haldið að þeir verði ekki staðnir að verki ef þeir senda 14 milljón eintök af einhverju sem er með svindlmæli. Þetta er algerlega galið. Mér fannst þetta vera viðskiptafrétt ársins.”

Loks nefnir Þorleifur að á árinu hafi mannkynið eignast fyrstu ljósmyndirnar af Plútó: „Ég nefni þetta af því ég er sérstakur áhugamaður um geimferðir. Mér finnst geimferðir vera skýrasta birtingarmyndin um drauma mannkynsins. Og það verður í fyrsta sinn á næsta ári sem Bandaríkin hækka framlög til NASA gríðarlega. Kannski er mannkynið aftur byrjað að láta sig dreyma. Þetta væri þá fallegasta frétt ársins þegar við sigldum fram hjá Plútó. Fyrir utan að sjá Þjóðverja taka á móti fyrstu flóttamönnum á lestarstöðinni í München.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×