Innlent

Ellefu tilkynningar um nauðgun í hverjum mánuði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tilkynnt var um 276 kynferðisbrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra.
Tilkynnt var um 276 kynferðisbrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. vísir/gva
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst að jafnaði 11 tilkynningar um nauðgun í hverjum mánuði á síðasta ári, eða alls 126 tilkynningar allt árið 2015. Það eru um 77 prósent fleiri tilkynningar en allt árið áður og um 40 prósenta fjölgun miðað við meðalfjölda árin 2012 til 2014.

Þetta kemur fram í afbrotaskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2015. Þar segir að í fyrra hafi 276 tilkynningar um kynferðisbrot hafi borist lögreglunni, sem gera um 23 brot að jafnaði á mánuði. Tilkynntum kynferðisbrotum hafi fjölgað um 16 prósent á milli ára, en um sjö prósent samanborið við meðalfjölda síðustu þriggja ára á undan.

Samkvæmt skýrslunni fjölgaði tilkynningum um klám/barnaklám mest, eða um 100 prósent. Tilkynntum nauðgunum hafi hins vegar fjölgað mest þegar litið sé á raunfjölgun brota.

Tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum fækkaði um tæplega 30 prósent á milli ára og svipar fjöldi þeirra til fjölda árið 2012.

Þá fækkaði vændismálum mest hlutfallslega en fjöldi slíkra tilkynninga sveiflast mjög milli ára. Í skýrslunni segir að það sé einkum vegna þess að um sé að ræða frumkvæðisvinnu lögreglu og að fjöldinn ákvarðist nær eingöngu af því hve miklum tíma lögregla getur varið í málaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×