Innlent

Fjölga þarf innflytjendum til að standa undir hagvexti

Una Sighvatsdóttir skrifar
Nú við upphaf ársins 2016 er staðan í hagkerfinu býsna góð og allar forsendur til staðar fyrir áframhaldandi hagvexti, að mati Samtaka atvinnulífsins, en fram kom á hádegisfundi þeirra í dag um horfur í atvinnulífinu að aðstæður séu nú að breytast mjög hratt.

Vísbendingar eru um að bjartsýni neytenda hafi vaxið enda eykst einkaneysla hratt og kaupmáttur ráðstöfunartekna er orðinn meiri en hann var árið 2007. Flestar atvinnugreinar sjá fram á aukna fjárfestingu og ráðningar á þessu ári og spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því að Ísland verði í öðru sæti OECD 2016 ríkja með 3,7% hagvöxt. Meginstoðir þessarar jákvæðu þróunar eru mikil aukning útflutningstekna, sér í lagi vegna ferðaþjónustunnar.

Hverjir eiga að standa undir hagvextinum?

Stóra spurningin til lengri tíma er hinsvegar hvernig samfélagið á að standa undir hagvexti til framtíðar. Fyrirséð er að hlutfal eldri borgara mun vaxa hratt á næstu tveimur áratugum. Um leið fækkar vinnandi höndum hlutfallslega á móti.

Þetta eru risavaxnar áskoranir að mati Samtakanna, því ef hagkerfið heldur áfram að vaxa um 2,5% á ári er fyrirséð að mikill skortur verður á starfsfólki. Til að standa undir hagvexti þarf því að fjölga íbúum landsins sem geta unnið. Samtökin leggja meðal annars til að hækka verði eftirlaunaaldur og stytta námstíma til að mæta þessari þörf á vinnumarkaði.

Kalli á skýra stefnu í innflytjendamálum

Slíkar aðgerðir myndu þó ekki brúa mannaflaþörfina nema að hluta. Hagstofa Íslands hefur gert ráð fyrir árlegri þörf fyrir ríflega 2000 erlenda starfsmenn næstu tuttugu árin. Gangi þessar spár eftir mun hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi ríflega tvöfaldast, úr 8% landsmanna í 20%.

Samtök atvinnulífsins telja hinsvegar að þörfin verði umtalsvert meiri en Hagstofan gerir ráð fyrir. Þetta sé í senn óumflýjanleg og eftirsóknarverð þróun, sem muni breyta ásýnd samfélagsins á komandi árum með aukinni fjölbreytni og styrkja hagkerfið, en kalli um leið á skýra stefnu í innflytjendamálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×