
Lára er ein átján aðila sem skrifa undir grein í Fréttablaðinu í dag þar sem ýtt er á stjórnvöld að setja lög og reglur um rafrettur vegna skaðlegra áhrifa.
Velferðarráðuneytið vinnur að innleiðingu á nýrri tóbaksvarnatilskipun Evrópusambandsins. Í tilskipuninni er meðal annars að finna ákvæði um rafsígarettur, bann við setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði og breyttar reglur um viðvörunarmerkingar á tóbaksvörum. Unnið er að frumvarpi og gert ráð fyrir að það verði lagt fram á þessu löggjafarþingi.
„Við vitum vel af tilmælum WHO en það er verið að skoða hvaða leið verði farin. Það er best að segja ekki meira um það mál að sinni,“ segir Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.
Þetta er vitað um rafrettur
- Vökvinn sem menn eima með rafrettum er ekki saklaus vatnsgufa heldur inniheldur hann skaðleg efni, t.a.m. krabbameinsvaldandi efni og efni sem geta valdið skemmdum á erfðaefni og frumudauða.
- Nikótíneitrunum af völdum rafrettuvökva fer fjölgandi. Sérstaklega meðal barna undir fimm ára aldri.
- Blóðrannsóknir sýna að nikótín og önnur efni í rafrettugufu mælast í blóði þeirra sem anda að sér gufunni með óbeinum hætti.
- Rannsóknir eru á frumstigi. Of snemmt er að segja til um langtímaafleiðingar.
- Fimmta hvert barn í 10. bekk hefur reykt rafrettu.
- Ekkert eftirlit er með söluaðilum.
WHO hvetur ríki heims til að setja reglugerðir vegna rafretta
Bannað verði að eima rafrettur innanhúss á almennings- og vinnustöðum.
Tryggt verði að börn og táningar undir lögaldri geti ekki nálgast rafrettur.
Umbúðir rafrettuvökva verði merktar með viðvörun.
Ekki verði viðhöfð opinber ummæli sem halda því fram að rafrettur hafi heilsufarslegan ávinning.
Allar auglýsingar á rafrettum og vökvum í þær verði bannaðar.
Sala á rafrettum sem innihalda bragð af ávöxtum, nammi eða áfengi verði bönnuð þar til sannað hefur verið að þær höfði ekki til barna.
Reykingamönnum skal ráðlagt að nota viðurkenndar reykleysismeðferðir en ekki rafrettur þangað til nægilegar niðurstöður liggja fyrir um öryggi þeirra. Rafrettur eigi einungis að nota í þeim tilfellum þar sem árangur hefur ekki náðst með öðrum nikótíngjöfum í reykleysismeðferð.