Enski boltinn

Kompany bað um skiptingu vegna þreytu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vincent Kompany í leiknum í gær. Hér er hann ásamt Zlatan Ibrahamovic, leikmanni Manchester United.
Vincent Kompany í leiknum í gær. Hér er hann ásamt Zlatan Ibrahamovic, leikmanni Manchester United. Vísir/Getty
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir að fyrirliðinn Vincent Kompany hafi beðið um skiptingu í leik liðsins gegn Manchester United í gær vegna þreytu.

Kompany hefur síðustu misseri verið ítrekað frá vegna meiðsla en hann var aðeins í annað skipti í byrjunarliði City á tímabilinu í gær.

Kompany hefur verið að glíma við nárameiðsli síðan í september en hann kom við sögu í aðeins 25 leikjum fyrir bæði félagslið og landslið á síðasta tímabili. Hann hafði spilað 38 leiki tímabilið á undan.

Sjá einnig: Er Kompany næstur undir fallöxina hjá Guardiola?

„Hann sagði okkur að hann væri þreyttur og væri ekki reiðubúinn að spila síðari hálfleikinn,“ sagði Guardiola í samtali við fjölmiðla eftir leik.

„Það mikilvæga er að hann er ekki meiddur. Það er skref í rétta átt,“ bætti stjórinn við.

Kompany hefur fengið 78 mínútur í deildinni á tímabilinu.Vísir/Getty
Kompany var í viðtali við Daily Mail um helgina þar sem hann sagðist ætla framvegis vera meira hreinskilinn við lækna Manchester City og leyfa þeim að ákveða hvenær hann sé orðinn leikfær.

„Staðan mín er mjög einföld. Ég hef verið frá í sex mánuði. Ég þurfti að lofa læknunum því að ég myndi vera hreinskilinn gagnvart þeim með mína líðan og gegna því þegar þeir taka ákvörðun,“ sagði Kompany í viðtalinu.

Sjá einnig: Fjórtándu kálfameiðsli Kompanys | Frá í mánuð hið minnsta

Belginn taldi sig kláran til að spila með City gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku. En hann var svo ekki í leikmannahópi liðsins.

„Ég sagði þeim að mér fannst ég tilbúinn til að spila en þeir tóku þessa ákvörðun fyrir mig. Auðvitað vildi ég spila en ég hef ákveðið að hlusta betur á læknana.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×