Erlent

Sænskur fréttamaður fyrir dóm eftir að hafa smyglað dreng til landsins

Smygl á fólki til Svíþjóðar hefur margfaldast að undanförnu.
Smygl á fólki til Svíþjóðar hefur margfaldast að undanförnu. vísir/epa
Sænski fréttamaðurinn Fredrik Önnevall hefur verið ákærður af þarlendum yfirvöldum fyrir að hafa smyglað sýrlenskum dreng til Svíþjóðar í maí 2014. Tveir samstarfsfélagar hans eru ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Önnevall, en mennirnir þrír gætu átt yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsi. Þeir munu mæta fyrir dóm á næstu dögum.

Önnevall, sem starfar hjá sænska ríkisútvarpinu SVT, hafði verið að taka upp heimildarmynd um viðbrögð evrópskra stjórnvalda við flóttamannavandanum í álfunni þegar hann hitti piltinn, hinn 15 ára Abed í Grikklandi. Önnevall segir drenginn hafa grátbeðið um aðstoð og því hafi hann ekki séð annan kost í stöðunni en að verða við beiðni drengsins.

„Ég sé ekki eftir neinu. Ég veit hvað við gerðum og ég myndi gera það nákvæmlega sama í dag,” sagði Önnevall í samtali við SVT. „Hvernig get ég séð eftir því að hafa hjálpað óttaslegnum dreng sem grátbað um aðstoð mína?”

Önnevall hefur lýst yfir sakleysi sínu, því hann segist trúa því að hann hafi ekkert rangt gert, þrátt fyrir andstæðar fullyrðingar ríkissaksóknara.

Haft er eftir ríkissaksóknara í Svíþjóð að þremenningarnir hefðu brotið lög með því að aðstoða útlending við að komast frá öðru landi, Grikklandi, til Svíþjóðar, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það að aðilinn væri án vegabréfs og dvalarleyfis í Svíþjóð.

Önnevall segir að ekki sé um smygl að ræða, enda hafi hvorki hann né samstarfsfélagar hans þegið peninga fyrir að koma Abed til landsins.

Ekki fylgir sögunni í sænskum fjölmiðlum hvar Abed er staddur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×