Innlent

Líkur á að Davíð taki fylgi frá Ólafi Ragnari

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"En ég gæti trúað því að það fylgi sem hann fær komi að einhverju leyti frá þeim sem hafa ætlað að kjósa Ólaf," segir Grétar Eyþórsson.
"En ég gæti trúað því að það fylgi sem hann fær komi að einhverju leyti frá þeim sem hafa ætlað að kjósa Ólaf," segir Grétar Eyþórsson. vísir/anton/gva
Kosningabaráttan verður meiri, harðari og pólitískari en áður stefndi í eftir að Davíð Oddsson boðaði framboð sitt til forseta Íslands, segir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur. Hann telur flest benda til þess að Davíð taki fylgi frá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.

„Það er eiginlega dálítið spurningarmerki hversu mikill stuðningurinn við Davíð er. En ég gæti trúað því að það fylgi sem hann fær komi að einhverju leyti frá þeim sem hafa ætlað að kjósa Ólaf. Það hefur legið fyrir að Ólafur hefur átt talsvert fylgi meðal Framsóknarmanna og meðal Sjálfstæðismanna og það gæti náttúrulega gengið á það ef þeirra gamli foringi er kominn í baráttu við Ólaf,” segir Grétar. Stuðningur við Davíð hafi ekki mælst mikill í könnunum – en þó hafi nafn hans sjaldan borið á góma í tengslum við forsetakosningarnar.

Grétar Þór Eyþórsson.
Grétar segir erfitt að spá fyrir um hvort Davíð taki fylgi frá öðrum frambjóðendum, til dæmis Guðna Th. Jóhannessyni, en Guðni og Ólafur mælast nánast hnífjafnir í skoðanakönnunum.

„Það er erfitt að átta sig á því. Vegna þess að fylgi Guðna kemur sennilega mjög víða að en það má búast við því að það muni hafa einhver áhrif á Guðna. Ég svona held fyrir fram, áður en við erum farinn að sjá nokkuð af til dæmis könnunum eða öðru slíku, að það fari hlutfallslega meira frá Ólafi en Guðna. En hversu mikið þori ég ekki að segja enn þá.”

Þá segir Grétar tilkynningu Davíðs hafa komið sér mjög á óvart. „Ég get ekki sagt annað. Ég hélt satt að segja að þetta væri komið á þann stað, þessi framboðsboðsmál, sem þau yrðu á fram að kosningum, en það var nú ekki. Þannig að jú, þetta kom mér mjög mikið á óvart.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Davíð hafi hugsanlega fundið til ábyrgðar

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segist ekki eins viss um að Davíð sæki fylgi frá Ólafi. „Já og nei. Ég held að Ólafur Ragnar hafi miklu víðtækari skírskotun og meiri breidd. Hann hefur líka verið forseti í 20 ár og margar skoðanakannanir sýna að fólk telur hann hafa unnið mjög gott starf og geti ekki hugsað sér að kjósa gegn honum á meðan hann sækist eftir því að verða forseti,” segir Stefanía.

Hún segist líta á framboð Davíðs sem vilja hans til að beita sér áfram á hinu pólitíska sviði, frekar en framboð gegn þeim sem sækjast eftir embætti forseta Íslands.

„Ég held frekar að hann hafi gengið með þetta í maganum í einhvern tíma og telji að nú sé tími til að stíga fram og beita sér aftur á hinu pólitíska sviði. Þannig að ég upplifi það ekki sem mótframboð gegn Guðna heldur frekar að hann finni til löngunar og mögulega ábyrgðar til þess að stíga fram á þetta pólitíska svið.“

Þá séu afar áhugaverðar kosningar fram undan, verði bæði Davíð og Ólafur í framboði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×