Enski boltinn

Neil Warnock: Aron Einar er draumur stjórans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Cardiff. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, var fljótt einn af aðalmönnunum í liði Cardiff City eftir að Neil Warnock settist í stjórastólinn hjá félaginu.

Það fer ekkert á milli mála að Neil Warnock hefur mikla trú á íslenska víkingnum sem var ekki með fast sæti í Cardiff-liðinu áður en Warnock tók við. Warnock hrósar líka Aroni Einari í viðtali eftir sigurleik á móti Huddersfield um helgina.

„Við þurftum að þétta vörnina okkar í þessum leik og þetta var svolítið skrýtið fyrir (Aron Einar) Gunnarsson sem var oft á tíðum farinn að spila eins og miðvörður,“ sagði Neil Warnock í viðtali við Wales Online.

„Hann er draumur knattspyrnustjórans,“ sagði Neil Warnock um Aron Einar en íslenski fyrirliðinn hefur spilað 90 mínútur í síðustu sex leikjum.

„Þetta er svipað dæmi og þegar ég var með Greg Halford hjá Rotherham á síðasta ári. Hann var út úr myndinni þegar ég kom en varð síðan að draumi þjálfarans,“ sagði Neil Warnock.  

„Það er eins með Gunnarsson. Hann var ekki að spila og það var illskiljanlegt enda ekki hægt að finna betri mann í deildinni,“ sagði Warnock. Warnock er 67 ára gamall og hefur mikla reynslu. Hann hefur starfað sem þjálfari frá árinu 1980 eða löngu fyrr en Aron Einar fæddist.

Aron Einar hefur spilað sem brimbrjótur fyrir framan vörnina hjá Cardiff og er núna í svipaðri stöðu og hann skilar svo vel með íslenska landsliðinu.

„Ég tel að hann kunni líka að meta það að ég telji þetta vera besta staðan hans. Hann veit hvað hann er að gera og ég held að það geri enginn það betur en hann í ensku b-deildinni. Hann ætti einnig að geta laumað inn einu eða tveimur mörkum,“ sagði Warnock léttur að lokum.

Aron Einar Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×