Enski boltinn

Á­fall bætist við ó­göngur Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Ruben Dias í baráttu við Rasmus Höjlund í leiknum við Manchester United, en Pep Guardiola hefur nú greint frá því að Dias verði frá keppni í 3-4 vikur eftir að hafa meiðst í leiknum.
Ruben Dias í baráttu við Rasmus Höjlund í leiknum við Manchester United, en Pep Guardiola hefur nú greint frá því að Dias verði frá keppni í 3-4 vikur eftir að hafa meiðst í leiknum. Getty/Carl Recine

Englandsmeistarar Manchester City hafa verið í tómu tjóni undanfarnar vikur og ekki bætir úr skák að lykilmaður í vörn liðsins verður frá keppni fram yfir hátíðarnar.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, staðfesti á blaðamannafundi í dag að portúgalski miðvörðurinn Ruben Dias yrði frá keppni næstu 3-4 vikurnar eftir að hafa meiðst í 2-1 tapinu gegn Manchester United á sunnudaginn.

Dias missir því af heimsókn til Birmingham á morgun þar sem City mætir Aston Villa, og eins af leikjum við Everton, Leicester og West Ham. Mögulega gæti hann náð bikarleiknum við Salford City 11. janúar, og næsti deildarleikur eftir það er svo við Brentford 14. janúar.

Dias ætti að minnsta kosti að vera klár í slaginn fyrir leikinn mikilvæga við PSG í Meistaradeild Evrópu 22. janúar.

„Þetta eru meiðsli í vöðva og hann verður frá keppni í þrjár til fjórar vikur. Hann fann fyrir einhverju eftir 75 mínútur gegn United en hann er sterkur og vildi vera áfram á vellinum. Núna er hann meiddur,“ sagði Guardiola.

Góðu fréttirnar fyrir City eru að John Stones, Manuel Akanji og Mateo Kovacic æfðu allir í vikunni og sagði Guardiola að þeir gætu allir komið við sögu gegn Villa á morgun.

Dias hefur þegar misst af sjö leikjum vegna kálfameiðsla á þessari leiktíð og aðrir varnarmenn; Stones, Akanji, Kyle Walker og Nathan Ake, hafa allir misst af leikjum vegna meiðsla. Þá verður miðjumaðurinn Rodri ekki meira með liðinu á þessari leiktíð.

Gengi City hefur verið skelfilegt undanfarna tvo mánuði og hefur liðið aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum en tapað átta þeirra. Liðið er þó enn í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, en níu stigum á eftir toppliði Liverpool sem á leik við Everton til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×