Vísir greindi frá því í gær að Birgitta hefði sagt Julian Fellowes, höfundi Downton Abbey og lávarði í lávarðadeild breska þingsins, að skammast sín í miðri útsendingu.
Almennur dónaskapur
Í þættinum var Birgitta meðal annars spurð um hlutverk Wikileaks í tengslum við Bandarísku forsetakosningarnar. Birgitta reyndi að útskýra að Wikileaks hafi skipað mikilvægt hlutverk seinustu árin, þótt henni hafi fundist gengið of langt varðandi Hillary Clinton. Greip lávarðurinn stöðugt fram í fyrir Birgittu og talaði um landráð og svikara.
„Hann leyfði mér bara aldrei að tala sem er náttúrulega einhver hefð fyrir í breska þinginu. Einhver svona almennur dónaskapur. Þegar hann byrjaði svo að segja að allir uppljóstrarar séu landráðamenn þá var mér bara nóg boðið. Eftir það gat ég ekki setið á mér og sagði honum að skammast sín.“ Sagði Birgitta um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Ekki ein um að vera misboðið
Þá sagði Birgitta einnig að hún hafi ekki verið ein um það að hafa misboðið framkoma breska lávarðsins.
„Þetta var mjög athyglisverð upplifun að vera í þessum þætti og hún sagði mér það einmitt leikkonan sem sat við hliðina á mér að henni hefði verið svo misboðið hvernig lávarðurinn talaði að hún var við það að grípa inn í en henni fannst ég ná að svara honum nógu vel svo hún þyrfti ekki að tjá sig.“
Í Facebook færslu sinni segir hún að mest hafi farið fyrir brjóst hennar að lávarðurinn hafi þóst tala fyrir hönd þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Hún segir það minna um margt á silfurskeiðarmenn hér á landi.