Erlent

Breyta nafni á Ólympíubæ til að koma í veg fyrir misskilning

Atli Ísleifsson skrifar
Vetrarólympíuleikar fara fram í PyeongChang í febrúar 2018.
Vetrarólympíuleikar fara fram í PyeongChang í febrúar 2018. Vísir/AFP
Ríkisstjóri í Gangwon-héraði í Suður-Kóreu greindi frá því í morgun að nafn bæjarins Pyeongchang verði framvegis skrifað PyeongChang. Stórum staf í nafninu miðju hefur verið komið fyrir til að forða útlendingum frá því að rugla bænum saman við norður-kóresku höfuðborgina Pyongyang.

Vetrarólympíuleikar fara fram í PyeongChang í febrúar 2018.

Ríkisstjórinn Choi Moon Soon sagði í morgun að líkindin hafi áður leitt til að gestir hafi fyrir mistök flogið til Norður-Kóreu. Hann tók dæmi um Daniel Olomae Ole Sapit, fulltrúa Masai-ættbálksins í Kenýa, sem hafi flogið til Pyongyang þar sem hann var yfirheyrður í fimm tíma af norður-kóreskri lögreglu. Var hann látinn greiða sekt áður en honum var sleppt.

„Þannig að til að forðast frekari misskilning höfum við ákveðið að markaðssetja bæinn sem PyeongChang með stóru c-i,“ sagði Choi á fréttamannafundi í morgun.

Pyeong merkir friður á kóresku og chang hagsæld. „Við vonum að leikarnir færi heiminum bæði frið og hagsæld,“ sagði ríkisstjórinn í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×