Handbolti

Einbeiti mér að sókninni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Karen Knútsdóttir skorar og skorar fyrir Nice í Frakklandi þessar vikurnar en liðið er komið í undanúrslit í tveimur bikarkeppnum.
Karen Knútsdóttir skorar og skorar fyrir Nice í Frakklandi þessar vikurnar en liðið er komið í undanúrslit í tveimur bikarkeppnum. Fréttablaðið/Valli
Karen Knútsdóttir, leikstjórnandi íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, er í miklu stuði með liði sínu Nice í Frakklandi þessar vikurnar. Karen raðar inn mörkum og er algjör lykilmaður í Nice-liðinu, en hún er búin að skora rétt ríflega sjö mörk að meðal­tali í leik í síðustu fjórum deildar- og bikarleikjum.

Karen skoraði átta mörk um helgina í 20-17 útisigri á Nantes en íslenski leikstjórnandinn og stöllur hennar eru í fimmta sæti deildarinnar í baráttu um sæti í úrslitakeppninni og komnar í undanúrslit í bæði deildabikarnum og franska bikarnum. Karen sá til þess að liðið komst í undanúrslit deildabikarsins með sjö marka leik í sigri gegn Nimes.

„Ég er ekki að spila vörn enda er þetta mjög harður handbolti hérna. Ég einbeiti mér að sókninni og er í góðu formi. Ég er búin að vera mikið meidd undanfarin ár en nú er það að skila sér að vera í 100 prósent standi og mér líður alveg ótrúlega vel,“ segir Karen í viðtali við Fréttablaðið spurð um velgengnina undanfarnar vikur.

Allar heilar

Framarinn segir ástæðu þess að Nice-liðið sé á svona góðum skriði þessar vikurnar þá að loksins eru allir leikmenn liðsins heilir, en það hefur verið að glíma við mikil meiðslavandræði.

„Þetta er í fyrsta skipti síðan fyrir jól enda er mikill stígandi í liðinu. Við erum með landsliðsmann í öllum stöðum nema einni. Við erum með gott lið en megum ekki við meiðslum. Við erum svona tíu sem erum góðar en á eftir okkur eru nokkrar ungar og efnilegar,“ segir Karen sem nýtur þess í botn að vera að spila vel og búa í Nice sem er við frönsku Rivíeruna.

„Ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Þetta er alveg geggjaður staður. Maður getur farið á ströndina núna þess vegna og notið lífsins. Þetta er smá ævintýri fyrir mig. Það var svolítið erfitt að koma sér inn í allt fyrst en núna er þetta bara gaman,“ segir Karen.

Karen er hér ákveðin á svip.vísir/pjetur
Í erfiðu námi

Karen viðurkennir að hún sé ekki komin inn í frönskuna þrátt fyrir að hafa nú búið í Frakklandi í hálft annað ár. Það er þó góð ástæða fyrir því.

„Því miður er ég ekki komin lengra en raun ber vitni. Ég er í 100 prósent fjarnámi í viðskiptafræði frá London þannig að ég fer á æfingu, læri, aftur á æfingu og fæ mér að borða og læri svo meira. Þannig eru dagarnir. Ég skil alveg handboltafrönskuna en auðvitað mætti ég vera betri. Mér finnst þetta mjög leiðinlegt en ég er aðeins að minnka við mig í náminu fyrir næstu önn,“ segir Karen.

Karen spilar með landsliðskonum frá Brasilíu, Frakklandi og Skandinavíu þannig enskukunnáttan í liðinu er góð og það hjálpar til.

„Það er búið að vera mikið sport hver á útskýra fyrir mér á ensku. Það mætti samt alveg sparka meira í rassinn á mér að læra frönskuna,“ segir Karen sem er stundum undir miklu álagi vegna námsins enda líka að iðka afreksíþrótt á hæsta stigi.

„Það koma álagspunktar þegar maður er í skólanum. Stundum væri ég til í að slappa af uppi í sófa í staðinn fyrir að þurfa að skila ritgerð. Þetta hentar mér samt ágætlega til að dreifa huganum. Ég væri samt til í að vera í 50 prósent námi en ekki 100 prósent og þannig ætla ég að hafa þetta á næstu önn. Ég held alltaf að ég geti gert meira,“ segir Karen og hlær við.

Fær EM-gesti í sumar

Mikið af Íslendingum verður í Frakklandi næsta sumar vegna Evrópumóts karla í fótbolta. Margir ætla að leigja sér íbúðir og hús í Nice og í kringum Rivíeruna og fær Karen auðvitað sína gesti.

„Ég fæ fjölskyldumeðlimi í heimsókn og einhverja vini. Ég bý bara rétt hjá Marseille þar sem annar leikurinn fer fram. Ég er komin með miða sjálf og ætla á völlinn. Ég var að skoða hótel í Marseille og sá að það var svona 96 prósent uppbókað. Þetta verður hrikalega gaman,“ segir Karen.

Samningur Karenar rennur út í sumar. Stefnir hún á að vera áfram? „Ég veit það ekki. Ég þarf aðeins að hugsa málið. Það eru einhverjar viðræður í gangi um áframhaldandi samning en þetta er allt á viðkvæmu stigi,“ segir Karen Knútsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×