Handbolti

Markakóngur EM snýr aftur til Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rivera fagnar einu af 48 mörkum sínum á EM í Póllandi.
Rivera fagnar einu af 48 mörkum sínum á EM í Póllandi. vísir/getty
Barcelona er búið að staðfesta að hornamaðurinn Valero Rivera komi til liðsins í sumar.

Rivera skrifaði undir þriggja ára samning við Barcelona en hann kemur til liðsins frá Nantes í Frakklandi.

Rivera leikur í vinstra horninu en honum er ætlað að fylla skarð Guðjóns Vals Sigurðssonar sem er á förum frá Barcelona til Rhein-Neckar Löwen eftir tímabilið.

Rivera er uppalinn hjá Barcelona og lék með liðinu til ársins 2005 er hann færði sig um set til Aragón. Hjá Barcelona lék hann undir stjórn föður síns og alnafna sem er nú landsliðsþjálfari Katar.

Rivera hefur verið í herbúðum Nantes frá 2010 en hann er fjórði markahæsti leikmaður frönsku deildarinnar í vetur með 93 mörk.

Þá er Rivera fastamaður í spænska landsliðinu sem endaði í 2. sæti á EM í Póllandi sem lauk fyrir skemmstu. Hann var markahæsti leikmaður mótsins með 48 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×