Handbolti

Aron lét sér nægja tvö mörk í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson er kominn af stað eftir EM.
Aron Pálmarsson er kominn af stað eftir EM. Vísir/EPA
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í kvöld þegar lið hans MVM Veszprem vann átján marka sigur á Nexe í Seha-deildinni.

Seha-deildin er handboltadeild liða úr suðaustur Evrópu en liðin í þessari tíu liða deild koma frá Hvíta-Rússlandi, Bosníu, Króatíu, Makedóníu, Serbíu, Slóveníu og Ungverjalandi.

Aron nýtti 2 af 4 skotum sínum í leiknum og gaf líka fimm stoðsendingar á félaga sína. Hann var stoðsendingahæstur á vellinum í kvöld.

Ungverjinn Mate Lekai var markahæstur hjá Veszprem með átta mörk úr níu skotum en þeir Gasper Marguc og Momir Ilić skoruðu sex mörk hvor.

MVM Veszprem komst í 10-2 og var 22-10 yfir í hálfleik. Aron skoraði bæði mörkin sín í fyrri hálfleiknum.

MVM Veszprem er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig og er einu stigi á eftir toppliði Vardar frá Makedóníu. Veszprem á hinsvegar tvo leiki inni og hefur enn ekki tapað leik í deildinni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×