Innlent

Fíkniefni upp á milljarð króna: Deila um niðursuðudósir og húsbíllinn verður fluttur til Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá tollaeftirliti við Seyðisfjörð.
Frá tollaeftirliti við Seyðisfjörð. Vísir
Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn hollensku pari á fimmtugsaldri sem ákært er fyrir stórfellt fíkniefnasmygl til landsins síðastliðið haust hélt áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fólkið var stöðvað við komuna til landsins með Norrænu á Seyðisfirði þann 8. september með 209 þúsund e-töflur og tíu kíló af MDMA mulningi til viðbótar.

Má áætla að hægt sé að framleiða um 80 þúsund e-töflur úr mulningnum svo í heildina er um að ræða tæplega 300 þúsund e-töflur. Götuvirði efnanna er hátt í milljarður íslenskra króna. Auk þess fundust 35 grömm af amfetamíni í húsbílnum sem fólkið flutti til landsins.

Maðurinn játar sök en konan hefur frá upphafi neitað að hafa vitað af tilgangi ferðarinnar. Hún hafi einfaldlega talið sig vera í ferðalagi með manni sínum. Tekur maðurinn undir með konu sinni. Ákæruvaldið telur hins vegar frásögn þeirra ótrúverðuga og telur ekki ganga upp að hún hafi ekki verið meðvituð um hvaða tilgangi förin til Íslands átti að þjóna. Þá hefur komið fram að þau hafi verið í fjárhagserfiðleikum og um leið vaknað upp sú spurning hvernig ferðin var fjármögnuð.

Maðurinn í grænni peysu og konan í svartri. Á milli þeirra situr túlkur sem þýðir af hollensku yfir á íslensku og öfugt. Myndin var tekin eftir að aðalmeðferð lauk í morgun.Vísir
Tóku á sig krók á leiðinni

För parsins hófst í Belgíu en þaðan óku þau húsbílnum um Holland og Þýskaland, þaðan til Danmerkur þar sem þau tóku Norrænu til Íslands. Saksóknari setur spurningamerki við krók sem parið tók á sig á leiðinni frá Belgíu til Danmerkur. Þau hafi gist á leiðinni þangað og telur saksóknari skrýtið að konan hafi ekki velt fyrir sér hvers vegna ekki var ekið rakleiðis til Danmerkur fyrst Ísland var áfangastaður þeirra.

Fíkniefnin voru falin í varadekki og tveimur gaskútum en einnig í fjórtán niðurstuðudósum. Þær fundust í skáp ásamt öðrum matvörum í húsbílnum. Setur saksóknari spurningamerki við frásögn mannsins hvernig hann hélt niðursuðudósunum leyndum fyrir konu sinni. Telur saksóknari manninn margsaga hvað þetta varðar.

Maðurinn segir að þau hafi keypt niðursuðudósir ásamt annarri matvöru áður en haldið var til Íslands. Hann hafi svo skipt þeim út fyrir þær sem innihéldu fíkniefnin og komið þeim fyrir ásamt annarri matvöru í skáp í húsbílnum. Aðspurður hvar hann hefði falið niðursuðudósirnar í bílnum hafði maðurinn við aðalmeðferð vísað til pláss við bílstjórahurðina og einnig til pláss undir farþegasætinu.

Kolbrún Benediktsdóttir flytur málið fyrir hönd ríkissaksóknara.Vísir/Valli
Hvorugt plássið nógu stórt

Saksóknari tók skýrslu af rannsóknarlögreglumanni á Austfjörðum í morgun. Honum hafði verið fengið það hlutverk á dögunum að prófa að koma fjórtán niðursuðudósum af sömu stærð fyrir á þeim stöðum sem maðurinn hafði sagst hafa falið dósirnar.

Rannsóknarlögreglumaðurinn sagði fyrir dómi að honum hefði reynst ómögulegt að koma þeim fyrir á fyrrnefndum stöðum. Reyndar hefði hann ekki einu sinni getað komið einni dós fyrir í plássinu við bílstjórahurðina. Hvorugt plássið væri nálægt því nógu stórt til að koma dósunum þar fyrir.

Aðspurður sagði maðurinn fyrir dómi að hans orð hefðu greinilega verið misskilin í dómssal við fyrri aðalmeðferð. Túlkur sér um að snara framburði mannsins af hollensku yfir á íslensku öllum viðstöddum til upplýsingar. Sagði hann nú að hann hefði geymt dósirnar í poka og undir teppi við hlið sætisins. Saksóknari spurði hvort hann væri ekki einfaldlega að breyta framburði sínum núna þegar í ljós kæmi að fyrri frásögn hans gengi ekki upp en hann neitaði því.

Ráðfærði hann sig endurtekið við verjanda sinn á þessu stigi og fékk á einum tímapunkti að fara afsíðis til ráðagerða. Þá virtist hann ekki viðbúinn spurningu saksóknara á einum tímapunkti og óskaði eftir því að verjandi hans fengi að svara fyrir hann. Saksóknari mótmælti því í hástert og þurfti maðurinn sjálfur að svara spurningum.

Konan var spurð að því hvort hún hefði séð dósirnar í bílnum. Hún svaraði því neitandi.

Efnin sem fundust í húsbílnum þann 8. september síðastliðinn.Vísir/GVA
Fengu ekki að vita af hlerunum

Verjendur ákærðu voru ósáttir við að hafa ekki fengið að vera viðstaddir þegar rannsóknarlögreglumaðurinn gerði tilraunir sínar að koma niðursuðudósunum fyrir á fyrrnefndum stöðum. Lögreglumaðurinn staðfesti að tilraunin og ljósmyndir sem teknar voru og lagðar fyrir dóminn í morgun hefði verið gerð að beiðni saksóknara.

Aðspurður hvort honum fyndist ekki óeðlilegt að Hollendingurinn sem sætir ákæru hefði ekki verið fenginn til þess að sýna rannsakendum á staðnum hvar hann faldi dósirnar sagðist hann ekki hafa neina skoðun á því.

Sömuleiðis eru verjendur mjög ósáttir við hafa ekki verið upplýstir um hlerunaraðgerð sem fram fór á Litla-Hrauni sem hluti af rannsókn málsins. Klefi mannsins var hleraður og hlustað þegar að kona hans kom í heimsókn. Upplýsingar um hlerunina eða gögn þeim fylgjandi rötuðu ekki í gögn málsins sem verjendur fá í hendur í aðdraganda þess að mál fara fyrir dóm.

Guðjón St. Marteinsson.
Aðspurður hvers vegna gögnin hefðu ekki ratað í gögn málsins sagði rannsóknarlögreglumaðurinn að lögfræðingur lögreglunnar á Austfjörðum hefði metið það sem svo. Ekkert hefði komið fram í samtölum þeirra sem skipti máli.

Verjendur spurðu rannsóknarlögreglumanninn hve oft hefði verið hlerað. Svaraði hann því að í tvígang hefði hann hlustað á samtöl parsins með aðstoð túlks. Í upphafi fyrra samtalsins hefðu þau sagt í upphafi samtalsins að þau ætluðu bara að ræða persónuleg málefni, „ekki hitt“. Þá neitaði rannsóknarlögreglumaður að lögreglan hefði framkvæmt aðrar aðgerðir eða fleiri hleranir sem verjendur hefðu ekki verið upplýstir um.

Húsbílnum ekið til Reykjavíkur


Guðjón St. Marteinsson, dómari í málinu, tók undir með verjendum að best væri að ákærði sýndi á vettvangi hvar hann faldi dósirnar. Saksóknari taldi það ekki nauðsynlegt en lagði þó til að ef ætti að gera það á annað borð væri tilvalið að vettvangsskoðun sækjanda, verjenda og dómara færi fram.

Húsbílnum verður því ekið frá Seyðisfirði og í höfuðborgina þar sem vettvangsrannsókn mun fara fram þann 15. febrúar. Var aðalmeðferðinni í framhaldinu frestað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×