Erlent

Umferðarstjóri sem gerði mistök reyndi að vara lestirnar við

Óli Kr. Ármannsson skrifar
Hundrað og fimmtíu manns voru um borð í lestunum sem skullu saman. Hér er krana beitt til að ná öðrum vagninum af vettvangi.
Hundrað og fimmtíu manns voru um borð í lestunum sem skullu saman. Hér er krana beitt til að ná öðrum vagninum af vettvangi. Fréttablaðið/EPA
Líklega leiddu mannleg mistök umferðarstjóra til lestarslyssins sem varð ellefu að bana í suðurhluta Þýskalands, hafa erlendir miðlar eftir saksóknara í Þýskalandi.

Yfir 80 til viðbótar slösuðust þegar tvær farþegalestir skullu saman á teinum við bæinn Bad Aibling í Bæjaralandi, að morgni 9. febrúar.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir saksóknara að svæðisstjóri hafi beint báðum lestum inn á teinana en svo reynt að vara lestarstjórana við.

Maðurinn, sem sé 39 ára gamall, verði líklega kærður fyrir manndráp af gáleysi og gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi.

„Ef hann hefði fylgt reglunum, þá hefði ekki orðið neinn árekstur,“ hefur BBC eftir Wolfgang Giese, aðalsaksóknara.

Giese nafngreindi ekki manninn sem var yfirheyrður af lögreglu, í viðurvist lögmanns síns, í byrjun vikunnar, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

Lögregla er sögð telja að svæðisstjórinn, sem umsjón á að hafa með því að beina vögnum á rétta teina og tryggja öryggi lestanna, hafi sent röng skilaboð í lestirnar. Lestirnar hafi átt að mætast á lestarstöð þar sem teinarnir skiptast, en skullu þessi í stað hvor framan á aðra á um hundrað kílómetra hraða á stað þar sem teinarnir liggja í sveig.

Guardian hefur eftir Giese að bilun í tæknibúnaði hafi verið útilokuð, en sérfræðingarnir sem fari með rannsóknina ætli að endurgera slysið til að prófa kenningu sína um hvað átt hafi sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×