Erlent

Vinsælasti áskorandi forsetans handtekinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stuðningsmenn Besigye safnast saman.
Stuðningsmenn Besigye safnast saman. vísir/epa
Lögreglan í Kampala, höfuð­borg Úganda, handtók í gær forsetaframbjóðandann Kizza Besigye. Frambjóðandinn var handtekinn á leið á kosningaviðburð í höfuðborginni og vakti það mikla reiði stuðningsmanna hans. Út brutust mikil mótmæli og brást lögregla við með því að kasta táragassprengjum inn í skarann.

Besigye býður sig fram gegn sitjandi forseta, Yoweri Musaveni, ásamt fimm öðrum. Besigye mælist með mest fylgi stjórnarandstæðinga, rúm þrjátíu prósent. Musaveni mælist hins vegar með um fimmtíu prósenta fylgi, en hann hefur setið á stóli forseta frá árinu 1986 og sækist nú eftir sínu fimmta kjörtímabili.

Einnig verður kosið til þings. Á þinginu er flokkur Musaveni, NRM, nú með 259 sæti af þeim 372 sem eru í boði. Flokkur Besigye, FDC, er með 36 sæti.

Kizza Besigye forsetaframbjóðandi.Nordicphotos/AFP
Talsmaður FDC, Semujju Nganda, sagði við fréttastofu Daily Monitor í Úganda að Musaveni hafi lýst því yfir að stjórnarandstæðingar mættu ekki standa í neins konar kosningabaráttu innan höfuðborgarinnar og þess vegna hafi Besigye verið handtekinn. „Lögreglan lokaði á okkur. Nú getum við ekkert annað gert en að tala við kjósendur á götum úti,“ sagði Nganda, en flokkurinn hafði áformað að halda kosningaviðburð á fótboltavelli í borginni.

Besigye var ekki lengi í haldi lögreglu í gær og þegar honum var sleppt hvatti hann stuðningsmenn sína til að halda friðinn. „Ég hvet stuðningsmenn mína til að halda ró sinni. Verum ákveðin og fylgjum lögunum,“ sagði Besigye er honum var sleppt. „Ég mun gera mitt besta til að komast aftur á staðinn og ávarpa gesti allra skipulagðra viðburða.“

Forsætisráðherra landsins, Frank Tumwebaze, varði handtökuna í gær. „Af hverju ætti að halda kosningaviðburði í viðskiptahverfi Kamp­ala? Besigye var að reyna að vekja á sér athygli því hann veit að hann mun tapa […] Það er skylda lögreglunnar að verna alla borgara,“ sagði Tumwebaze í viðtali við úgandska dagblaðið New Vision.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×