Erlent

Bresk kona banaði þriggja ára syni sínum við æfingaakstur

Atli Ísleifsson skrifar
Liam var þriggja ára þegar hann varð undir bílnum í júní síðastliðinn.
Liam var þriggja ára þegar hann varð undir bílnum í júní síðastliðinn.
Þriggja ára breskur drengur lést eftir að hafa orðið fyrir bíl þar sem móðir hans var við æfingaakstur.

Hin 34 ára Lyndsay Turner var í fyrsta sinn undir stýri þegar hún ók á son sinn Liam í júní á síðasta ári.

Sky News greinir frá málinu en réttarmeinafræðingar í Norwich hafa haft málið til meðferðar að undanförnu.

Turner segir í yfirlýsingu að hún hafi verið að aka bílnum inn á bílastæði nærri heimili fjölskyldunnar í Watton í Norfolk þar sem eiginmaður hennar var að kenna henni á bílinn.

Liam var að leik með eldri systur sinni þegar móðir hans steig fyrir mistök á bensíngjöfina og bíllinn kipptist áfram og á Liam.

Stephen Turner, eiginmaður Lyndsay, var ekki inni í bílnum heldur stóð fyrir utan og fylgdist með henni þar sem hún æfði sig. Hann dró svo Liam undan bílnum og ók með hann í átt að sjúkrahúsi, en stöðvaði svo sjúkrabíl sem varð á vegi hans. Liam lést á sjúkrahúsinu skömmu síðar af völdum heilaskaða.

Þrátt fyrir að Lyndsay hafi verið akandi á almenningsvegi, án ökuskírteinis og án tryggingar, þá segir saksóknaraembættið að það þjóni ekki hagsmunum almennings að ákæra Turner í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×