Skoðun

Það má ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó

Atli Freyr Arason skrifar
Skrif þessi eru hugsuð sem svör við pistli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem birt voru í Fréttablaðinu þann 3. febrúar sl.

Undirritaður felst á þær fullyrðingar Áslaugar að nafnalöggjöf á Íslandi er furðuleg sem og bann við blönduðum bardagalistum, en eru þetta virkilega forsendur fyrir röksemdafærslunni „áfengi í matvöruverslanir“? Þvert á móti. Frjáls markaður og einstaklingsfrelsi eru helstu vopnin í rökræðunum.

Hvað þýðir frjáls markaður?

Frjáls markaður þýðir í grunninn að ríkið skiptir sér ekki af markaðnum heldur leyfi honum að þróast á eigin forsendum, að markaðurinn stjórnast einungis af framboði og eftirspurn. Þetta getur þýtt að markaðnum verði ekki settar neinar kvaðir, t.d. bann eða takmörkun. Þetta getur þýtt að markaðurinn verði ekki skattlagður. Hugmyndin er þessi: enginn skattur á vörum og þjónustu = lægra vöruverð og lægri framleiðslukostnaður. Lágur framleiðslukostnaður = aukinn áhugi á því að framleiða = aukin samkeppni á markaðnum = lægra verð fyrir neytandann. M.ö.o. allir græða, nema þeir sem eru of gráðugir.

Þetta er ekki alveg svona einfalt eins og hagfræðingurinn Karl Polayni útskýrir í bók sinni, The Great Transformation.

Búum til sýndarveruleikadæmi; Ef við ætlum að búa í samfélagi með fullkominn 100% frjálsan markað með engum ríkisafskiptum af neinum vörum og þjónustu þá væri allt áfengi að sjálfsögðu leyft í verslunum. Þá ætti einnig að vera hægt að nálgast vændi, heróín og Fruity Loops í næstu sjoppu þar sem að frjáls markaður stuðlar að engum kvöðum á vörur eða þjónustu. Ef ríkið kemur ekki að markaðnum með neinum hætti eins og t.d. með bannvörum, lág- og hámarksþaki eða skattlagningu, þá eru m.ö.o. engar leikreglur á markaðnum. Í dag er réttarríkið ‘dómarinn’ í markaðsmálum. Lægri skattar skila sér í lægri innkomu í ríkissjóð, en það er ekki vandamál, þar sem, samkvæmt frjálsum markaði eru eftirlitsstofnanir, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og fleiri opinberar stofnanir ekki í umsjá ríkisins.

Skila þessar framkvæmdir sér í lægra verði fyrir neytandann?

Á Íslandi eru ríkisreknir skólar sem og einkareknir skólar. Skoðum menntakerfið á Íslandi sem raunverulegt dæmi. Heildarkostnaður ríkisins vegna kennslu allra menntaskólanema í landinu er 9,5 milljarðar króna. Nemandi á bóknámsbraut í félagsvísindadeild í Borgarholtsskóla er að greiða samtals 136.000 krónur fyrir stúdentspróf sitt á fjórum árum. Sama nemanda stendur einnig til boða að sækja um nám í Keili í formi háskólabrúar. Fullt nám til þriggja ára í félagsvísindadeild við Keili kostar nemandann 1.830.000 krónur. Það er mismunur upp á tæpar 1,7 milljónir íslenskra króna frá ríkisstyrkta skólanum. Ef Borgarholtsskóli væri ekki styrktur af ríkinu væri námskostnaður líklega svipaður og hjá Keili.

Skattar hjálpa okkur að greiða niður þá þjónustu sem okkur finnst sjálfsagt að hafa aðgang að, sama hver fjárhagsstaða neytanda er.

Þó markaður sé frjáls og samkeppni sé jöfn þá er ekki óumflýjanlegt að menn taki ýmist góðar eða slæmar fjárhagslegar ákvarðanir.

Ekki er því útilokað að fyrirtæki gæti eignað sér 100% markaðshlutdeild á ‘frjálsum’ markaði. Hvað þá? Þá er ekkert opinbert samkeppniseftirlit til að stöðva þá í að stjórna framboði og verðlagi eftir þeirra eigin hugmyndum, því jú, eru ekki öll fyrirtæki rekin í hagnaðarskyni? Græða á daginn og grilla á kvöldin? Ef það er enginn markaðsdómari, hver á þá að skerast í leikinn þegar leikurinn fer að verða ósanngjarn?

Þegar enginn skattpeningur rennur í ríkissjóð, hver á þá að greiða fyrir gatnaviðgerðir og nýjar brýr? Hver á að greiða læknum og kennurum laun? Hver ætlar að halda uppi almenningssamgöngum? Yndislegt þetta einstaklingsfrelsi!




Skoðun

Sjá meira


×