Skoðun

Skriftamál Samfylkingarinnar

Ef við misstígum okkur í eigin lífi, finnst okkur eðlilegt að játa þau mistök. Ef þau snerta aðra, að viðurkenna mistökin gagnvart viðkomandi.

Þegar um er að ræða stjórnmálaflokk í vanda, er flókið að sammælast um hver mistökin séu. Skýrt er hins vegar, að ef um mistök er að ræða, þá snúa þau að almenningi, eru ekki einkamál örfárra, a.m.k. ekki hjá flokki sem vill vera fjöldahreyfing.

Samfylkingin missti mikið fylgi í síðustu kosningum. Og þrátt fyrir ríkisstjórn sem gengur gróflega gegn almannahagsmunum, minnkar fylgið enn. Nauðsynlegt er að flokkurinn greini undirliggjandi orsakir. Hvaða mistök voru gerð? Hvað var á hans valdi? Formaðurinn Árni Páll Árnason fór þá óvenjulegu leið að gera sína greiningu á fylgistapinu opinbera með bréfi til allra flokksmanna og hefja fundaferð um landið, samræður við flokksmenn um vanda Samfylkingarinnar.

Um einstök atriði greiningar Árna Páls má deila, en mörgum eins og mér var létt að málin skyldu sett upp á borðið og öllum boðið til opinnar umræðu. Samfylkingin var í blindgötu. Í stað þess að taka þessu fagnandi og ganga til rökræðu með félögum sínum, hafa sumir þeirra kvartað yfir því að ekki sé horft fram á við og lögð áhersla á okkar stefnumál. Vandinn er sá að þjóðin hefur takmarkaðan áhuga á Samfylkingunni og hennar stefnumálum. E.t.v. vegna þess hversu margt tókst ekki í framkvæmd þeirra á síðasta kjörtímabili, þrátt fyrir góðan árangur á mörgum sviðum.

Jafnaðarmannaflokkar eiga í vanda víðast í Evrópu, eins og hefðbundnir flokkar almennt. Fylgi minnkar, félögum fækkar.

Við sem teljum stjórnmálaflokka mikilvægar almannahreyfingar og jafnaðarstefnuna um jöfn tækifæri og réttlátt samfélag eiga brýnt erindi, eigum að taka boði Árna Páls með opnum huga og setjast á rökstóla um orsakir vanda Samfylkingarinnar og leiðir fram á við. Sá sem skilur ekki eigin fortíð, mun eiga erfitt með að fóta sig í framtíðinni.




Skoðun

Sjá meira


×