Erlent

Laus úr fangelsi eftir fjóra áratugi í einangrun

Bjarki Ármannsson skrifar
Woodfox (t.h.) gengur út úr fangelsinu á föstudaginn ásamt bróður sínum.
Woodfox (t.h.) gengur út úr fangelsinu á föstudaginn ásamt bróður sínum. Vísir/EPA
Bandaríska fanganum Albert Woodfox var fyrir helgi sleppt úr fangelsi í Louisiana-ríki þar sem hann sat inni í rúma fjóra áratugi. Woodfox, sem var í félagsskap Svörtu pardusanna svokallaðra (e. Black Panthers), var ákærður árið 1972 fyrir að myrða fangavörð. Woodfox hefur hins vegar verið sýknaður af þeirri kæru í tvígang og í fyrra var ákveðið að láta hann lausan þar sem dómari hafnaði því að hann yrði ákærður þriðja sinni fyrir sama glæp.

Woodfox þurfti alls að dúsa í einangrun í fjörutíu og þrjú ár en enginn annar bandarískur fangi hefur setið svo lengi í einangrun. Alþjóðlegu samtökin Amnesty fagna því að Woodcox hafi verið látinn laus en Íslandsdeild samtakanna tók upp mál hans í Bréfamaraþoni sínu í desember síðastliðnum.

„Eftir fjögurra áratuga einangrun er lausn hans löngu tímabær og sjálfsögð,” er haft eftir yfirherferðarstjóra Amnesty í Bandaríkjunum í fréttatilkynningu. „Ekkert mun í raun bæta fyrir þá grimmilegu, ómannlegu og niðurlægjandi einangrunarvist sem hann sætti af hálfu Louisiana-ríkis. Woodfox hefur varið um helming ævi sinnar í að ná fram þessu löngu tímabæra réttlæti sem hann lokst fékk á 69. afmælisdag sinn.”

Woodfox er einn Angóla-þremenninganna svokölluðu sem kenndu sig við fangelsið þar sem þeir dvöldu eftir að hafa verið dæmdir í áratugalangt fangelsi fyrir vopnað rán. Hinir tveir voru látnir lausir annars vegar 2001 og hins vegar 2013. Þremenningarnir börðust fyrir því að réttindi svartra fanga innan fangelsisins yrðu virt.

Þremenningarnir hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu í báðum málum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×