Skoðun

Nauðsynlegt að gangast við mistökum

Jafnaðarmenn skrifar
Bréf formanns Samfylkingarinnar sem hann sendi öllum flokksmönnum nýlega, vakti mikla athygli. Einkum vegna þess að þar ræddi hann mistök sem flokkurinn hefur gert á síðustu árum. Margir fögnuðu bréfinu, en aðrir gagnrýndu hversu seint það kom fram. Enn aðrir sögðu nær að horfa til framtíðar en velta sér upp úr því sem liðið er og að uppgjör vegna síðasta kjörtímabils hefði þegar farið fram. En flokkur með 9% fylgi í skoðanakönnunum þarf og verður að grandskoða sín mál.

Að sækja styrk til þjóðarinnar

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vann kraftaverk á síðasta kjörtímabili og skilaði árangri í efnahagsmálum sem fáir myndu leika eftir. En stjórnin ætlaði sér um of. Hún setti stór mál á dagskrá til að auka réttlæti og jöfnuð í landinu og skapaði þannig miklar væntingar meðal kjósenda sinna. Þegar ekki náðist að ljúka þeim, olli Samfylkingin þeim sárum vonbrigðum.

Við í Samfylkingunni eigum að læra af þessu og leggja áherslu á að sækja styrk til þjóðarinnar til að taka ákvarðanir um erfið mál, svo sem eins og umsóknina um aðild að ESB og að tryggja að arður af auðlindunum skili sér til þjóðarinnar. Einnig til að breyta stjórnarskránni og tryggja nauðsynlegar lýðræðisumbætur svo tiltekinn hluti kjósenda geti kallað eftir því að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Breiðfylking nauðsynleg

Samfylkingin, flokkur jafnaðarmanna, á fullt erindi í íslenskum stjórnmálum. Jafnaðarstefnan er nauðsynlegt svar við þeirri misskiptingu sem fólkið í landinu gerir eðlilega kröfu um að verði leiðrétt. Enginn veit hvort Píratar muni starfa til hægri eða vinstri. Breiðfylking jafnaðarmanna í næstu ríkisstjórn verður að leggja áherslu á eftirfarandi mál: Bæta kjör aldraðra og öryrkja, tryggja öllum húsnæði við hæfi, efla og endurskipuleggja heilbrigðiskerfið og bæta hag barnafjölskyldna.

Árni Gunnarsson

fv. alþingismaður

Erna Indriðadóttir

varaþingmaður

Rannveig Guðmundsdóttir

fv. ráðherra

Svanfríður Jónasdóttir

fv. alþingismaður

Tómas Guðjónsson

ungur jafnaðarmaður




Skoðun

Sjá meira


×