Skoðun

Rótarý, Rauði krossinn og friðarstyrkir

Helga G. Halldórsdóttir skrifar
Rótarýhreyfingin starfar í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum. Félagar eru rúmlega 1,2 milljónir í um 35 þúsund klúbbum. Á Íslandi er 31 klúbbur með um 1.200 félaga. Innan hreyfingarinnar er fólk úr öllum starfsgreinum og hittist á vikulegum fundum klúbbanna, sem eru með fjölbreytt og fræðandi fundarefni. Félagar eru á öllum aldri og báðum kynjum.

ótarýfélagar hafa sameiginlegan áhuga á mannúðar- og menningarstarfi og vilja til að hvetja til velvildar og friðar í heiminum.

Opinbert kjörorð hreyfingarinnar er „Þjónusta ofar eigin hag“ og einkunnarorð núverandi alþjóðaforseta er „Verum veröld gefandi“. Rótarýdaginn 27. febrúar halda Rótarýfélagar hátíðlegan og þema dagsins hér á landi er fjölmenning, málefni sem er ofarlega á baugi með auknum fólksflutningum milli landa.

Rótarýhreyfingin leggur samfélögum lið með ýmsum hætti til viðbótar við hið áhugaverða starf klúbbanna. Rótarýsjóðurinn (Rotary Foundation) er eitt öflugasta verkefni hreyfingarinnar. Klúbbfélagar um allan heim leggja fé til sjóðsins og ráðstafað er úr sjóðnum 100 milljónum dollara árlega til mannúðar-, fræðslu- og menningarmála. Margir hafa notið góðs af styrkjum úr þessum sjóði og hefur baráttan gegn lömunarveikinni, svonefnt Polio-Plus verkefni, verið þar veigamest.

Samskiptanet friðarstyrkþega

Tveggja ára námsstyrkir til meistaranáms í friðarmálum er eitt af nýrri verkefnum sjóðsins. Styrkirnir eru bundnir sex virtum háskólum í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og Ástralíu. Fimmtíu til sjötíu styrkir hafa verið veittir árlega. Styrkirnir standa undir skólagjöldum, húsnæði, fæði, bókum og ferðum og hafa íslenskir námsmenn sýnt þeim mikinn áhuga. Margar umsóknir berast en það hefur vakið athygli að ellefu Íslendingar hafa hlotið styrki úr sjóðnum. Styrkirnir eru mjög veglegir og hafa skipt miklu máli fyrir íslenskt samfélag og þá sem notið hafa. Nokkrir af styrkþegunum hafa starfað hjá Rauða krossinum hér á landi og alþjóðavettvangi, en einnig hjá öðrum mannúðarsamtökum sem Íslendingar eru aðilar að. Vaxandi þörf er fyrir fólk menntað í fjölmenningu og friðarfræðum og þekking þess nýtist víða í verkefnum.

Með friðarstyrkjunum hefur Rótarý byggt upp samskiptanet friðarstyrkþega, sem starfa um allan heim og vinna að því að bæta líf þeirra sem verst standa, búa við fátækt og eru á átaka- og stríðshrjáðum svæðum. Menntun á þessum sviðum er gott veganesti ungs fólks, sem vill vinna að mannúðarmálum. Víða eru mannréttindi brotin og þörf á öflugum verkefnum sem stuðla að þróun í átt til jafnréttis og friðar.

Rauði krossinn og fleiri mannúðarsamtök hafa notið góðs af þessum friðarsjóði. Þetta er stórkostlegt framlag og ómetanlegt fyrir lítið land eins og Ísland að nemendur eigi þess kost að mennta sig með styrk frá Rótarýhreyfingunni. Auglýst er eftir umsækjendum í Rótarýsjóðinn um mánaðamótin febrúar/mars ár hvert.




Skoðun

Sjá meira


×