Skoðun

Helgar tilgangurinn meðalið?

Gestur Jónsson og Hörður Felix Harðarson og Kristín Edwald skrifa
Talsvert hefur verið rætt og ritað um meðferð embættis sérstaks saksóknara á heimildum til símhlustana við rannsókn svonefndra hrunmála. Fram hefur komið opinberlega að á árunum 2009-2012 lagði embættið fram 116 beiðnir um símhlustanir og voru þær allar samþykktar af dómstólum. Gagnrýnt hefur verið að aðhald dómstóla hafi ekki verið sem skyldi og bent á að þessi framkvæmd samrýmist illa ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

Líklegt er að um eins konar Evrópumet sé að ræða en Moldavía komst þó nærri þessu vafasama meti þar sem 99,24% allra beiðna um hlustun símtækja á árinu 2007 voru samþykktar af þarlendum dómstólum. Í dómi mannréttindadómstólsins frá árinu 2009 var framkvæmdin í Moldavíu talin í andstöðu við 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs. Var þar meðal annars vísað til þessa óvenju háa hlutfalls, skorts á reglum um hlustun, varðveislu og eyðingu gagna og um vernd trúnaðarsambands lögmanns og skjólstæðings.

Við meðferð nokkurra sakamála á hendur fyrrum stjórnendum fjármálafyrirtækja síðustu misseri hefur ákæruvaldið notast talsvert við upptökur af samtölum sem aflað var með hlustunum. Valdir kaflar slíkra samtala hafa verið endurritaðir og lagðir fram sem gögn í sakamálunum, auk þess sem saksóknarar hafa séð ástæðu til að spila umræddar hljóðupptökur í réttarsal. Í mörgum tilvikum, líklega flestum, er um að ræða samtöl sem umræddir einstaklingar áttu við fyrrum samstarfsfélaga, vini eða ættingja stuttu eftir að þeir höfðu verið leiddir til skýrslugjafar hjá embætti sérstaks saksóknara með réttarstöðu sakbornings. Við þá skýrslugjöf var þessum einstaklingum óskylt lögum samkvæmt að svara spurningum um ætlaða refsiverða hegðun.

Grundvallarréttindi virt að vettugi

Tilviljun hefur augljóslega ekki ráðið tímasetningu hlustana í þessum málum. Það fylgir því óvissa og mikið hugarangur að vera sakaður um refsiverða háttsemi. Markmiðið með hlustunum við þessar kringumstæður, mörgum árum eftir atvik málsins, var að hirða afrakstur af þeim áhyggjum sem yfirheyrsla hjá lögreglu veldur. Með öðrum orðum var þess freistað að kanna hvort umræddir einstaklingar myndu í samtölum við sína nánustu og ráðgjafa varpa sök á sig sjálfa eða aðra. Með þessari framkvæmd voru grundvallarréttindi þessara einstaklinga virt að vettugi.

Málsvarnir sem reistar hafa verið á ætluðum réttarbrotum embættis sérstaks saksóknara hafa takmarkaðan hljómgrunn fengið hjá dómstólum fram til þessa. Í dómi Hæstaréttar frá 4. febrúar sl. bar þó svo við að sú framkvæmd embættis sérstaks saksóknara sem hér hefur verið lýst var talin brjóta gegn 2. mgr. 64. gr. sakamálalaga, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Um afleiðingar þessara réttarbrota segir í forsendum dómsins: „Því verður horft framhjá upptökunum við úrlausn málsins“. Um þá framkvæmd embættis sérstaks saksóknara að hlusta á samtöl ákærðu við verjendur á meðan á rannsókn málsins stóð var að sama skapi vísað til þess að þær upptökur hefðu ekki verið lagðar fram í málinu, enda væri lagt bann við því í sakamálalögum.

Þessi niðurstaða Hæstaréttar hlýtur að vera mikið umhugsunarefni. Með þessum dómi hefur verið staðfest að brotið var gegn rétti umræddra einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar. Þessi réttindi eru talin það mikilvæg að þau eru tryggð í sakamálalögum, lögum um mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá. Þagnarréttur sakaðra manna stafar af því að í réttarríkjum heimsins hafa menn komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að sekt manns þurfi að sanna með öðrum hætti en þeim að sakborningurinn sjálfur verði krafinn sagna. Reglan er eitt af svörum réttarríkisins við því hvernig tryggja megi að saklausir menn verði ekki sakfelldir.

Af dómi Hæstaréttar virðist mega draga þá ályktun að tilgangurinn helgi meðalið við rannsókn þessara mála. Ákæruvaldið rauf trúnað sem samfélag réttarríkja hefur sammælst um að sé undir öllum kringumstæðum heilagur. Enginn getur sagt með vissu hvaða áhrif þetta hafði á rannsókn málsins og ákvörðun um útgáfu ákæru. Freistingin fyrir lögreglu hlýtur að vera mikil hér eftir sem hingað til að komast í þessar trúnaðarupplýsingar við rannsókn mála. Þess eins verður að gæta að leggja ekki fram afrakstur slíkra réttarbrota sem sönnunargagn í sakamáli.

vísir/stefán



Skoðun

Sjá meira


×