Skoðun

Að þakka fyrir sig

Eyvindur P. Eiríksson skrifar
Seint þakka sumir og þakka þó. Hér þakkar þessi áttræði tölvupikkari, sem lengst kenndi útlendingum íslensku en skrifar nú bækur. En þau sem ráða gefa þær ekki út, enda „of mikil ádeila“. Ádeila? Er ekki flest að fara til hákristilegs fjandans? Ekki trúlaus gaurinn en lítt hrifinn af al-þettaoghitt-guði, hvaða nafni sem nefnist. Sköpunarklúður hans vill hann t.d. ekki kenna einhverjum „honum“ eða „henni“ um. Það verk stjórnast augljóslega af einhverju „gengur-gengur ekki“-lögmáli. Hver startaði því BANG-i er annar handleggur. „Hver skapaði guð?“, spurði barnið „Ljótt að skrökva“, sagði mamma, og skulu trúboðendur minntir á, að það er enn ljótt, sérstaklega að börnum, þótt vel sé borgað. M.a.o.: Hvaða hrellir fór að kalla dauðahjálp „dráp“? Enginn drepinn, aðeins hjálpað úr kvölum. Sem hver olli?

Útgefendur svara ekki kallinum og skal þakkað fyrir að vekja ekki vonlausum sölumanni verka sinna falskar vonir. Jú, einn skammaðist yfir trufluninni: Að bjóða sér handrit! Skrifarinn hér kann ekki að vera í klíku, bara klípu. Og allir hata Strandamenn! Ha? Hah!

Jæja. Það hefur víst lítið að segja hvað okkur finnst, þessum aumingjalýð, lösnum eða gömlum, sem getur sjálfum sér um kennt, að amrískum sið, að hafa bara tvö hundruð þúsund Íslandskrónur á mánuði og sumir ekki það. Skítt með menntun og starfskunnáttu, ef maður er of lítill fáviti til að hafa „vit“ á að skipta henni í einkagróða. Nei, „athafnamennirnir“, sem geta að vísu ekki athafnað sig án aðstoðar stjórnvalda, sem þeir sjálfir kosta til valda, fá auðvitað að hrifsa sem mest þeir mega – og eiga. Um þetta sjá pólitísku sprellikallarnir þeirra, og „nikkedukkerne“!

Gróðamennin stjórna almennt fjölmiðlum, frjáls pressa lítt í boði frekar en í US-inu og víðar. Þetta gengur, því borgarinn er að jafnaði heiðarlegur, trúir þeim. Flesta dreymir líka um að fá smámola af dýra brauðinu, skinnin. Samfélagið er spillt hvort eð er. Furðumargt frábært hér einnig þó. „Ókei og holræs“, sagði leikfélagi fyrir vestan. En manni sýnist 60% landans ganga með sjálfspíningarhvöt, fínt orð! Eða „Massa-kiss-me“, sko.

Biggasti lúserinn

En öllu fer fram. Já? Laugavegur orðinn enskubúðagata í amrísku krummaskuði, gerir út á túristabylgju sem brotnar svo og fjarar út. Áfram veginn silast bílafólkið, þekkir ekki stæðahús, eyðir ævinni mengandi þannig, meðan blessuð þjóðin stefnir hraðan í að verða aftur biggasti lúserinn. Kaupmenn vita ekki um göngugöturnar vinsælu í útlandinu.

Kallinn þessi hefur ekki átt bíl í hundrað ár, æææ, hjólað mestalla sína hundstíð, oftast á eigin uppgerðu hjólum. Átt hins vegar skútur og skektur. Unnið fjölda starfa, m.a.s. sem blaðamaður, átti t.d. viðtal í Moskvu við Leonov, fyrsta mann sem fór út úr fari í geimnum, og kafteininn, Beljaév. Sá líka Ararat en enga örkina samt. Jájá.

Honum mér tókst sem sé að verða gamall. Þá hlupu ástin mín og krakkarnir upp til handa og fóta og skutu í Norræna húsinu á málstofu og listakvöldi á Sólon. Þar taldist Strandakallinn allmerkur maður, gott skáld og rithöfundur, jafnvel sæmilegur fræðimaður. Frábært fólk ræddi stubbinn og verk hans, eða flutti brot úr hans og eigin verkum. Bar honum gjafir. Hann er varla kominn niður á fasta jörð enn.

Ástarþakkir Gro Tove, börnin mín og makar og börn, ekki síst Bragi og Eldey, besti bróðir og frú og þeirra börn, Dagný, Ástráður, Njörður, Jóhanna, Egill, Steini gamli vinur, Valdi, Teitur, Morten, Óttar, Ari og Kjuregei, og aðrir vinir nær og fjær.

Næst er að hugsa fyrir því níræða, í Reykjavík, Arnardal eða á Sands­mork. Kannski uppi á næsta skýi?




Skoðun

Sjá meira


×