Skoðun

Hvað er að í íslenskri minjavörslu?

Orri Vésteinsson skrifar
Á Íslandi eru að lágmarki 130.000 minjastaðir. Af þeim hefur um fjórðungur verið skráður á vettvangi og má því gera sér allgóða grein fyrir ástandi minja í landinu. Um 56%, eða meira en 70.000 staðir hafa horfið eða skemmst á síðastliðinni öld, langflestir vegna túnræktar, húsbygginga og vegaframkvæmda. Náttúruöflin, landbrot og uppblástur, bera ábyrgð á um 8.000 stöðum sem hafa skemmst eða horfið. Af þeim 60.000 minjastöðum sem eftir eru teljast 3.600 í stórhættu (staðurinn mun eyðast ef ekki er gripið til aðgerða) og 33.000 í hættu (staðurinn er á framkvæmda- eða rofsvæði). Mannaverk ógna meirihluta þessara staða en tæplega 7.000 eru í hættu vegna landbrots (sjávar- eða vatnsrof), uppblásturs eða skriðufalla. Þessar tölur eru grófar áætlanir, byggðar á þeim gögnum sem þó eru til en engin skipuleg vöktun fer fram þannig að hægt sé að segja til um hversu hratt minjastaðir eru að eyðast á landsvísu. Í Noregi sýna mælingar að eitt prósent minjastaða eyðist á ári hverju – sem jafngildir um 1.300 stöðum hér á landi.

Þessar tölur gefa hugmynd um vandann en segja ekki alla söguna: sumir flokkar minja hafa farið mun verr en aðrir út úr framkvæmdagleði síðustu áratuga. Þannig eru sennilega innan við fimm prósent bæjarhóla óskemmd – en bæjarhólar eru þeir minjastaðir sem geyma langsamlega mest af gripum og öðrum minjum um líf Íslendinga frá landnámi og fram á 20. öld. Landbrot við sjávarsíðuna ógnar kannski ekki meira en 2.000 stöðum en þar á meðal eru flestir ef ekki allir lykilstaðir í sögu íslensks sjávarútvegs.

Stjórnvöld úrræðalaus

Af þeim hundruðum staða sem skemmast á ári hverju hér á landi er aðeins brot kannað með rannsóknum (44 uppgraftarleyfi voru veitt á síðasta ári) og engar heildstæðar áætlanir eru til um hvernig eigi að bregðast við þeirri ógn sem steðjar að þeim þúsundum sem fyrirsjáanlega munu hverfa á næstu árum og áratugum.

Íslensk stjórnvöld eru úrræðalaus frammi fyrir þessum vanda. Þau hafa ekki treyst sér til að takast á við hina raunverulegu vá sem steðjar að íslenskum menningararfi – eyðingarmætti peninga- og náttúruaflanna. Þau hafa ekkert fram að færa nema innihaldslaust hringl með stofnanir. Starfsmenn forsætisráðuneytisins sjá ekki bjálkann í auga stjórnvalda en hreyta ónotum í fornleifafræðinga eins og þeir séu rót vandans. Þeir eru það ekki – fornleifafræðingar eru fólkið sem er, bókstaflega, drullugt upp fyrir haus að bjarga íslenskum menningararfi.

Boðað frumvarp um að kljúfa Minjastofnun í tvennt og leggja enn frekari hindranir í veg rannsókna leysir engan vanda. Það dregur athyglina frá hinum raunverulegu ógnum, veikir rannsóknarinnviði og torveldar björgunarstarfið. Ég hvet forsætisráðherra til að taka frekar höndum saman við okkur sem vinnum á þessu sviði til að finna lausnir sem virka.

KVÓT: Stjórnvöld fela úrræðaleysi sitt gagnvart minjaeyðingu á bak við árásir á fornleifafræðinga.




Skoðun

Sjá meira


×