Skoðun

Rauðu molarnir

Unnur Helgadóttir skrifar
Undanfarið hefur umræðan um flóttafólk verið hávær. Ýmist er allt kapp lagt á að þagga niður umræðuna eins og um Voldemort sé að ræða eða biðlað til fólks að líta á björtu hliðarnar og bjóða flóttafólk velkomið til Íslands. Af því að við erum svo frábær og allt það. 

Lítum til baka um nokkur ár. Ísland í bullandi uppsveiflu og gífurleg þörf fyrir erlent vinnuafl. Pólverjar voru fluttir inn til landsins í álíka magni og Omaggio vasinn. Þeir unnu linnulaust fyrir lágu kaupi á meðan hinn almenni borgari keyrði um á svörtum gljáandi Range Rover með Bubba í botni. Þetta hentaði okkur vel, mjög vel meira að segja. Fjármálakerfið hrundi og við höfðum ekki þörf fyrir innflutta vinnuaflið lengur. Það besta í stöðunni var að hirða af þeim störfin og senda þau aftur heim. Þessa atburðarás má horfa á með mismunandi gleraugum, þar með talið svona; við skiluðum notaðri vöru sem við höfðum keypt nokkrum árum áður, einfaldlega vegna þess að hún hentaði okkur ekki lengur. Í einhverjum tilfellum var skilafresturinn runnin út og ekki einu sinni hægt að skipta. Í stað þess að nýta vöruna til hins betra þá skelltum við henni upp í hillu og létum afskiptalausa. Pólverjar sem komu hingað til lands í þeim erindagjörðum að vinna voru vissulega ekki flóttafólk en þeir voru í leit að betra og öruggara lífi sem við gátum veitt þeim. 

Staðan í dag er sú að milljónir flóttafólks eru í leit að betra og öruggara lífi. Margir hafa upplifað aðskilnað frá fjölskyldu sinni og óvissu um eigin örlög. Þau þrá að vera laus við hræðslu og kvíða. Það kallast varla eftirsóknarverð staða að vita ekki um afdrif fjölskyldumeðlima sinna. Flóttafólk er í leit að öryggi og það getum við veitt þeim. Það sem við eigum sameiginlegt með flóttafólki er að við erum öll manneskjur sem hafa félagslegar, líkamlegar og tilfinningalegar þarfir. Það sem hins vegar aðskilur okkur og flóttafólkið er að þau búa við stríðsátök og óstöðugt pólitískt ástand. 

Það eru forréttindi að alast upp sem barn á Íslandi, í hættulausu umhverfi og hafa einungis áhyggjur af því að líta til beggja hliða þegar farið er yfir götu. Það væri eftirsóknarvert að geta leyft öðrum börnum að alast upp á þennan hátt. Og talandi um blessuð börnin, þessi fordómalausu skinn. Í augum þeirra skiptir ekki máli hvaða tungumál þú talar, hver húðlitur þinn er eða hvort þú ert með derhúfu á hausnum eða slæðu fyrir andlitinu. Hér vitna ég sérstaklega í myndband sem Ævar vísindamaður gerði meistaralega vel. Sú ímynd sem blasir við börnum er auðvitað einfölduð og ýmsar aðrar breytur mikilvægar fyrir heildarmyndina. Engu að síður er þetta viðhorf sem við ættum að tileinka okkur og hafa á bak við eyrað endrum og eins. 

Ýmis rök hafa verið lögð fram gegn því að veita flóttafólki dvalarleyfi hér á landi. Þar ber hæst að við eigum að hugsa fyrst og fremst um íslenska samfélagsþegna sem þurfa mest á aðstoð að halda, til dæmis eldri borgara og öryrkja. Því eru flestir, ef ekki allir sammála. En spurningin er, hvenær getum við sagt að staða þessara tveggja málaflokka sé í góðum farvegi og nú getum við loks snúið okkur að flóttafólki? Ég efast um að við getum það einhvern tímann. Jú, kannski ef Tímon og Pumba yrðu við stjórnvölin. Umræðan hefur einnig leiðst út í að innan um flóttafólk leynast “ekkert alltof fínir pappírar.” Það er hárrétt en Ísland hefur líka alið af sér svarta sauði - því má ekki gleyma. 

Við erum komin á þann stað að þróun samfélagsins er ör og ýmsar breytingar eiga sér stað sem við ráðum ekki við. Flóttafólk er dæmi um þessar breytingar og með hvaða verkfærum við leysum þetta verkefni er undir okkur komið. Við þurfum að ákveða hvar við viljum staðsetja okkur í þessari hringiðu. Ætlum við að vera eins og Barbapabbi sem elskar alla eða tileinka okkur norður-kóreskt stjórnarfar? Það er eins og tveir andstæðir pólar togist á. Annars vegar viljum við vera gamla góða Ísland þar sem við lifum í öruggu og friðsælu umhverfi. Hér þekkjast allir mæta vel og fáir kippa sér upp við það ef jafnvel frændur og frænkur verða ástfangin. Hins vegar viljum við líka vera framarlega á alþjóðavettvangi hvað varðar tækni- og tölvuvæðingu, rannsóknir og nýsköpun. Þar sækjum við þekkingu til annarra landa og kraftar internetsins tryggja gott upplýsingaflæði. Við viljum sem sagt vera á báðum pólum en ætlum ekki að opna landið okkar fyrir öðru fólki. Áhugavert, vægast sagt. 

Þess vegna varpa ég spurningu út í kosmósið. Viljum við koma fram við flóttafólk eins og rauðu molana í Mackintosh´s dollunni? Það vill þá enginn en við borðum þá samt því við erum gráðug eða vegna þess að við neyðumst til þess.




Skoðun

Sjá meira


×