Skoðun

Háskóladagurinn

Hjörvar Gunnarsson skrifar
„Jæja, hvað ætlar þú svo að gera í haust?“ ...Spurningin sem allir fá, oft á dag um leið og fer að glitta í hvíta kollinn sem markar endalok þreytandi sögutíma og verkefnatíma um lífverur sem ekki nokkur maður vissi að væru til. Ég hef oft öfundað þau sem geta ekki svarað spurningunni og vita í raun ekkert hvað þau eiga að gera að loknu stúdentsprófi. Ég var alveg hinum megin á rófinu, ég var búinn að vita lengi að ég ætlaði að verða kennari. En þó var eitt ljón í veginum. Ég hafði nefnilega heyrt að það væru bara eldri konur sem hæfu nám við kennaradeildina og þó ég sé mikill áhugamaður um gamlar konur fannst mér það átakanleg tilhugsun að eyða háskólanáminu í kringum glamur í prjónum og umræður um barnabörn.

Ég fór því mjög spenntur á kynningardag Háskóla Íslands, var búinn að hlakka til lengi. Tilhlökkunin var að vísu ekki aðeins vegna þess að háskólanámið var svo ógurlega spennandi heldur hafði dagskráin í för með sér ferðalag að norðan og helgi í Reykjavík með tilheyrandi skemmtun.

Sem núverandi nemandi í Háskólanum er fyndið að hugsa til þess þegar ég og vinkona mín týndumst í völundarhúsi Háskóla Íslands og áttum í stökustu vandræðum með að finna Háskólatorg enda vön talsvert minni húsakosti í Framhaldsskólanum okkar á Húsavík. Eftir ævintýraferð um staði sem ég veit í dag að heita meðal annars Lögberg og Gimli fundum við þó torgið og hófumst handa við að leita okkur að framtíðarstarfi innan um fræðimenn úr öllum áttum sem ólmir vildu spjalla og segja okkur frá því sem þeir hefðu upp á að bjóða.

Um leið og ég komst í gegnum dyrnar á Háskólatorgi, blasti við mér skilti sem á stóð: Grunnskólakennarafræði. Eins og í klisjukenndri amerískri bíómynd sogaðist ég að básnum án þess að ráða við sjálfan mig og hitti þar tvo stráka, unga karlmenn. Eftir að ég hafði stunið upp úr mér að hugsanlega langaði mig til að verða kennari sögðu drengirnir mér frá því helsta sem þeir væru að gera í skólanum. Ég þakkaði fyrir og hóf græðgiskennda bæklingasöfnun og á tæpum hálftíma hafði ég náð fleiri auglýsingapappírum en góður ruslasafnari nær á mánuði.

Þessir strákar sem ég hitti við kennaraborðið höfðu meiri áhrif á mig en nokkurn hafði grunað. Ég vissi eftir þess heimsókn mína í skólann að ég gat fyllilega skráð mig í kennaranám. Ég tók slaginn og ég í dag er ég nemi við kennaradeild Háskóla Íslands og vinn að því að verða fullkomin fyrirmynd komandi kynslóða.

Í kennaranáminu er farið yfir gríðarlega margt og fólk þjálfað í því að vinna það stórkostlega starf sem kennsla felur í sér. Það má með sanni segja að í náminu sé unnið að því að bæta hvern einstakling og að hver nemi finni það besta í sjálfum sér og vinni með það á þann hátt sem hentar hverju sinni. Þannig er námsframboð fjölbreytt og nemendur hafa kost á að haga námi sínu eftir sínu áhugasviði og blanda námsleiðum saman í ódauðlega snilld sem við förum með út í grunnskóla þar sem við búum til umhverfi sem þroskar og eflir börn framtíðarinnar til alls kyns leikja og starfa. Við sem menntum okkur til kennara erum því ekki aðeins að læra fyrir okkur sjálf heldur samfélagið í heild.

Þar sem leið mín í kennaranám varð greið á háskóladeginum í fyrra verð ég að senda strákunum sem ég hitti smá kveðju: Strákar, hverjir sem þið eruð: Takk!




Skoðun

Sjá meira


×