Skoðun

Um réttindi kvenna í Íran

Stefán Karlsson skrifar
Ég las blogg um Íran eftir varaþingmann Pírata, Ástu Guðrúnu Helgadóttur, þar sem hún fullyrðir að konur í Íran búi við meiri réttindi en konur á Íslandi. Mér blöskraði svo þessi réttlæting og undirlægjuháttur gagnvart kúgunarstjórninni í Íran að ég sé mig tilneyddan til að bregðast við.

Hugmyndafræði klerkastjórnarinnar í Íran byggist á því að konur eigi að fara aftur inn á heimilin og þær eiga ekki að ganga í skóla. Þær eiga ekki að taka þátt í opinberu lífi í samfélaginu. Khomeini erkiklerkur í Íran, sem sjálfur tók sér níu ára brúði, sagði eitt sinn að pólitíska þátttöku kvenna mætti leggja að jöfnu við vændi.

Eftir íslömsku byltinguna í Íran 1979 afnámu stjórnvöld fjölskyldulögin frá 1975 sem tryggðu framfærslu eftir skilnað, takmörkuðu heimild til fjölkvænis og veittu jafnvel konum rétt til að skilja við eiginmenn sína og giftast aftur. Í stað þeirra komu hin skelfilegu írönsku refsilög en samkvæmt þeim er litið svo á að níu ára stúlka sé fullorðin. Ef hún fremur glæp sem kallar á dauðarefsingu getur rétturinn dæmt hana til dauða.

Ef karlmaður og kona lamast af völdum slyss skulu bætur fyrir skaðann sem konan fær nema helmingi þess sem karlmaðurinn fær. Lögin heimila föður, sem fær leyfi dómstóla, til að gifta dóttur sína burtu áður en hún nær þrettán ára aldri manni sem er sjötíu ára.

Sem áþreifanleg dæmi um það ástand sem konur í Íran búa við má nefna konu sem var hýdd til dauða vegna þess að sést hafði til hennar synda í heimilislaug fjölskyldunnar í sundbol og einnig sextán ára stúlku sem var hengd til dauða í byggingarkrana fyrir glæpi gegn hreinlífi. Þessari stúlku hafði verið nauðgað.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um þá kúgun sem konur í þessu landi búa við og ég hugsa að íslenskar konur myndu ekki vilja skipta. Að mínum dómi byggjast írönsk lög á kvalalosta. Það er hörmulegt til þess að vita að fólk með viðhorf eins og Ásta Guðrún hefur skuli geta komist til áhrifa í íslensku samfélagi sem allar líkur eru á miðað við það fylgi sem Píratar hafa í skoðanakönnunum.




Skoðun

Sjá meira


×