Skoðun

Bændur standa vaktina

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson skrifar
Á Íslandi hefur þróast merkilega fjölbreytt atvinnulíf þar sem ólíkar atvinnugreinar styðja hver við aðra með viðskiptum sín á milli sem öll skipta miklu máli. Þar á meðal er íslenskur landbúnaður og afleidd starfsemi.

Bein verðmætasköpun íslensks landbúnaðar er árlega 54 milljarðar króna. Þá er einnig hagrænn ávinningur í formi gjaldeyrissparnaðar þar sem ekki þarf að flytja inn matvæli í eins miklum mæli, sem leiðir líka til umhverfislegs ávinnings því að útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna flutninga er minni en ella.

Alls hafa um fjögur þúsund manns beina atvinnu af landbúnaði á Íslandi og aðrir fimm þúsund hafa atvinnu hjá stórum og smáum fyrirtækjum um allt land sem tengjast framleiðslu landbúnaðarins.

Bændur hafa reynst íslensku samfélagi vel og hefur verð á íslenskum matvælum haldist stöðugra og hækkað minna en þau innfluttu á undanförnum árum. Þá lögðu íslenskir bændur sitt af mörkum við að halda aftur af hækkun matvöruverðs eftir efnahagshrunið þegar allar innfluttar vörur ruku upp í verði.

Íslenskir bændur eru stoltir af framlagi sínu til íslensks atvinnulífs og samfélags. Alþýðusamband Íslands virðist þó helst vilja losna við það framlag því sambandið hefur skorað á Alþingi að fella nýgerða búvörusamninga og kallað eftir því að innflutningur á landbúnaðarafurðum verði stóraukinn.

Þessi afstaða sambandsins er óskiljanleg. Í fyrsta lagi eru þúsundir félagsmanna Alþýðusambandsins í störfum sem eru beintengd íslenskum landbúnaði. Í öðru lagi þá liggur fyrir að styrking á gengi krónunnar hefur ekki skilað lægra verði á innfluttum mat- og drykkjarvörum, sem hefði fært félagsmönnum Alþýðusambandsins umtalsverða kaupmáttarstyrkingu. Þeirra eigið verðlagseftirlit hefur sýnt fram á hvernig verslunin skilar ekki ábata til neytenda hvort sem það er vegna lækkunar á opinberum álögum eða styrkingar gengis.

Það er ótrúlegt að Alþýðusambandið skuli velja að beina spjótum sínum að íslenskum landbúnaði. Nýr búvörusamningur felur í sér að verði á innlendri matvælaframleiðslu er haldið niðri. Hvernig halda menn að þróunin yrði ef hætt yrði að greiða niður verð á innlendri matvöru og neytendur þyrftu eingöngu að treysta á sanngjarna álagningu verslunarinnar?






Skoðun

Sjá meira


×