Skoðun

Kynning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum

Þorvaldur Örn Árnason skrifar
Fyrir tæpum áratug síðan gerðu Sveitarfélagið Vogar og Fornleifastofnun Íslands með sér samning um aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu. Verkinu er að ljúka og verður afraksturinn kynntur á fundi í bókasafninu í Stóru-Vogaskóla á laugardaginn 12. mars kl. 15. Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, verður með skygnusýningu og skýringar og svarar fyrirspurnum. Búast má við áhugaverðri kynningu, m.a. vegna þess að Kristborg hefur teiknað fjölda fornminja listavel og auk þess tekið ljósmyndir og teiknað fornleifakort þar sem fornleifar eru merktar inn á með GPS-nákvæmni eins og sjá má í skýrslunum. Allir eru velkomnir!

Verkefnið er unnið samkvæmt stöðlum Fornleifastofnunar um skráningu fornleifa og niðurstöður skráðar í gagnagrunn sem nær til alls landsins. Þess má geta að Fornleifastofnun Íslands er sjálfseignarstofnun undir stjórn fornleifafræðinga, en ekki ríkisstofnun eins og nafnið gæti bent til.

Samkvæmt lögum eru fornleifar hvers kyns mannvistarleifar, eitthvað sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, og eru 100 ára og eldri. Ekki aðeins mannvirki heldur einnig staðir sem tengjast menningu og atvinnuvegum. Gott dæmi um það eru varirnar með allri ströndinni sem róið var úr um aldir. Ef nauðsynlegt er talið að spilla fornleifum eða hylja þær, þarf að leita heimildar Minjastofnunar Íslands.

Starfsmenn Fornleifastofnunar skipulögðu tilhögun verksins, en tóku tillit til óska sveitarfélagsins um forgang tiltekinna skipulagssvæða. Sveitarfélagið veitti aðgang að tölvutækum loftmyndum til notkunar við skráninguna. Fornleifastofnun skilar staðsetningarhnitum fornleifa í sveitarfélaginu á tölvutæku formi sem má varpa inn á stafrænar loftmyndir og nýtist við skipulagsgerð.

Sveitarfélagið Vogar hefur afnotarétt af afrakstri skráningarinnar, enda kostaði það vinnuna, en höfunda ber ætíð að geta.

Verkinu er skilað í þremur skýrslum. Sú fyrsta kom út 2011, önnur 2014 og sú þriðja og síðasta er að koma út nú. Fornleifarnar eru vel á annað þúsund og skráðar og númeraðar eftir jörðum (lögbýlum).

Hægt er að skoða tvær fyrstu skýrslurnar hér á vef sveitarfélagsins og sú þriðja verður aðgengileg þar innan skamms: https://www.vogar.is/Umhverfismal/Fornleifar_i_Vogum/




Skoðun

Sjá meira


×