Skoðun

Lýðheilsa sumra, ekki allra

Guðmundur Edgarsson skrifar
Þjóðfélagsverkfræðingar af ýmsu tagi halda því fram að verði aðgengi að áfengi bætt með sölu þess í matvöruverslunum muni lýðheilsu þjóðarinnar hnigna. Lýðheilsufræðingar hafa nefnilega komist að því að sé áfengi eingöngu selt í sérstökum vínbúðum leiti fólk ógjarna þangað nema að undangenginni vel ígrundaðri ákvörðun. Verði vín hins vegar selt í matvöruverslunum stóraukist hætta á að fólk sem þykir sopinn góður laumi bjór eða vínflösku í matarkörfuna.

Þessi sjónarmið eru reist á sandi. Þannig er að áfengi er þegar á ýmsan hátt jafnaðgengilegt fólki eins og því væri stillt upp innan um annan varning í kjörbúðum. Vínbúðin í Spönginni er staðsett við hliðina á Hagkaupum í sömu byggingu. Svo náið er sambýli þessara tveggja verslana að inngangur þeirra er sameiginlegur. Vínbúðin gæti allt eins verið ein deild í Hagkaup rétt eins og kjöt- og mjólkurdeildin enda innangengt á milli. Svipaða sögu er að segja af nábýli Vínbúðarinnar í Mosfellsbæ og Bónus. Búðirnar eru staðsettar hlið við hlið í sama verslunarkjarnanum án þess að lýðheilsunni sé ógnað.

En áfengi er ekki bara aðgengilegt fjölda fólks við matarinnkaup í ýmsum verslunarmiðstöðvum. Allstór hópur fólks þarf starfs síns vegna að ferðast erlendis þar sem ódýrt áfengi blasir víða við. Nefna má hópa eins og flugáhafnir, viðskiptamenn og embættismenn svo ekki sé minnst á okkar háttvirtu alþingismenn. Svo er annar handleggur að margir einstaklingar innan þessara hópa mega ekki til þess hugsa að almenningur njóti sama aðgengis og þeir sjálfir. Óþarfi er að nefna nöfn í því samhengi en óneitanlega kemur í hugann fólk eins og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Kári Stefánsson.

Svo virðist því sem stór hópur fólks sé undanþeginn kröfunni um bætta lýðheilsu þjóðarinnar en til þess ætlast af öðrum að þeir einir beri þann kross. Slíka mismunun er vitaskuld ekki hægt að líða í þjóðfélagi jafnaðarhyggju. Einfaldasta leiðin til að vinna gegn þess háttar ójöfnuði er því að leyfa sölu áfengis í kjörbúðum og treysta fólki til að nálgast þá vöru á sama hátt og aðra matvöru.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars.




Skoðun

Sjá meira


×