Innlent

Fylgi Framsóknarflokksins ekki mælst minna í átta ár

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra er varaformaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra er varaformaður Framsóknarflokksins. Vísir
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi samkvæmt nýrri Gallup könnun á meðan Framsókn mælist með minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan snemma árs 2008. Frá þessu er greint á RÚV.

Tæplega 27 prósent sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum. Það er fimm prósentustiga aukning frá síðustu könnun. Einungis sjö prósent sögðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn. Því hefur fylgi flokksins minnkað um fjögur prósent síðan í síðustu viku.

Píratar mælast samkvæmt þessari könnun með 29,3 prósenta fylgi. Það er þremur prósentustigum minna en fyrir viku. Rétt undir 20 prósent myndu kjósa Vinstri græna en það er aukning um þrjú prósentustig. 9 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinguna, 5 prósent Bjarta framtíð, nær 3 prósent Viðreisn og tæpt eitt prósent aðra flokka eða framboð.

Spurning könnunarinnar var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? Könnunin var gerð á netinu dagana 7. - 12. apríl. Heildarúrtak var 1434, þátttökuhlutfall 56,1 prósent og þar af 82,9 prósent sem nefndu sérstakan flokk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×