Fótbolti

Púðurkerling sprakk við fætur leikmanns sem kastaði hornfánanum upp í stúku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tobias Sana.
Tobias Sana. Vísir/Getty
Sænskir knattspyrnuáhorfendur urðu sér enn á ný til skammar í kvöld þegar flauta þurfti af Íslendingaslag IKF Gautaborgar og Malmö í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta vegna ólæta áhorfenda.

Það voru aðeins meira en tíu mínútur eftir af leiknum þegar áhorfandi kastaði púðurkerlingu inn á völlinn sem sprakk við fætur varamannsins Tobias Sana sem spilar með Malmö.

Tobias Sana brá mikið þegar púðurkerlingin sprakk og missti algjörlega stjórn á skapi sínu í kjölfarið. Hann hljóp í átt að hornfánaum reif hann upp og kastaði upp í stúku í áhorfendurna sem höfðu kastað púðurkerlingunni inná völlinn.

Tobias Sana lék með Gautaborgarliðinu fyrir nokkrum árum og það átti örugglega einhvern þátt í viðbrögðum hans.

Staðan var markalaust þegar atvikið varð. Öryggisverður reyndu að róa menn en dómari leiksins ákvað samt að flauta leikinn af. Annar aðstoðardómarinn var mjög nálægt atvikinu og var að sögn sænskra fjölmiðla í miklu sjokki.

Fyrst var gert 33 mínútna hlé á leiknum á meðan dómarar og öryggisverðir fóru yfir málið en svo var tekin sú ákvörðun að flauta leikinn af.

Aganefnd sænska knattspyrnusambandsins mun nú taka málið fyrir og ákveða bæði um refsingar, sektir og það hvað verður um lokamínúturnar í leiknum.

Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson voru báðir í byrjunarliði Malmö og inná vellinum þegar atvikið varð. Hjörtur Hermannsson var líka nýkominn inná sem varamaður hjá IFK.

Aftonbladet fjallar um málið hér og það má einnig sjá umfjöllun Expressen hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×