Innlent

Fleiri ákærðir fyrir brot við Holuhraun

Svavar Hávarðsson skrifar
Eldgosið í Holuhrauni laðaði að fjölda fólks.
Eldgosið í Holuhrauni laðaði að fjölda fólks. Fréttablaðið/Egill
Þrír einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir að hafa þann 4. september árið 2014 ekið inn á svæði sem lögreglustjórar á Húsavík og Seyðisfirði höfðu lokað fyrir allri umferð vegna eldgoss í Holuhrauni og yfirvofandi flóðahættu úr Dyngjujökli.

Samkvæmt ákæruskjali er þeim gefið að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu með því að hafa ekið upp frá bænum Grænavatni í Mývatnssveit og þaðan í suðurátt inn í Dyngjufjalladal og að eldstöðvunum í Holuhrauni. Þannig hafi þeir dvalið inni á svæði í óleyfi sem hafði verið lokað um nokkurt skeið. Lögregluembættin á Norðurlandi eystra höfðu lokað umræddu svæði ótímabundið þann 19. ágúst sama ár.

Þetta eru ekki einu ákærurnar sem hafa verið gefnar út þar sem menn eru sakaðir um að hafa farið á svig við lokanir lögreglu á svæðinu haustið 2014.

Þyrluflugmaður hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa í þrígang flogið inn á svæðið norðan Vatnajökuls meðan á lokunum stóð og hleypt farþegum út til að virða fyrir sér eldgosið í Holuhrauni. Mál þremenninganna verður tekið fyrir þann 19. maí í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 7. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×