Enski boltinn

Fleiri hjá Tottenham biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Toby Alderweireld og Jan Vertonghen.
Toby Alderweireld og Jan Vertonghen. Vísir/Getty
Tottenham átti frábært tímabil í ensku úrvalsdeildinni en það endaði á skelli á móti föllnu liði Newcastle United um helgina. Tottenham tapaði þessum lokaleik 5-1 og missti þar með annað sætið til erkifjenda sinna í Arsenal.

Tottenham-liðið var búið að vera í öðru sætinu allt frá því í byrjun febrúar en missti það með því að fá aðeins tvö stig út úr síðustu fjórum leikjunum sínum.

Það sárasta af öllu var án efa að klúðra tækifærinu á því að enda loksins ofar en Arsenal í töflunni.

Jafntefli á móti West Bromwich Albion og Chelsea og tapleikir á móti Southampton og Newcastle skilja eftir súrt bragð í munni leikmanna Spurs sem annars ætti að vera himinlifandi með flott tímabil þar sem liðið náði besta árangri sínum frá tímabilinu 1989-1990.

Toby Alderweireld, varnarmaður Tottenham, var einn af leikmönnunum sem sló í gegn í vetur og hann taldi ástæðu til að biðjast afsökunar á frammistöðu liðsins í lokaleiknum.  Hann er ekki sá eini enda bað knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino líka afsökunar og talaði um að þetta hafi verið versta frammistaðan undir hans stjórn.

„Við biðjum stuðningsmenn okkar afsökunar. Slæmur dagur. Takk fyrir allan stuðninginn á tímabilinu. Við getum farið að hlakka til að spila í Meistaradeildinni og það er fullt af öðrum jákvæðum hlutum líka," skrifaði Toby Alderweireld inn á Twitter-síðu sína.

Toby Alderweireld er þó ekkert kominn í sumarfrí því hann er á leiðinni á Evrópumótið í Frakklandi með belgíska landsliðinu. Það mæðir meira á honum nú þegar Vincent Kompany er frá vegna meiðsla.

Hér fyrir neðan má sjá þrjú skilaboð hans á Twitter, fyrst það sem kom eftir leikinn, svo það sem hann setti inn fyrir leikinn á móti Newcastle og loksins það þegar hann fagnaði því að vera í EM-hóp Belga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×