Enski boltinn

Gylfi Þór eftirsóttur á Englandi, Ítalíu og í Þýskalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Eftir að skora níu mörk á seinni hluta leiktíðar og ellefu í heildina verður Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, eftirsóttur í sumar.

Ensku götublöðin hafa skrifað um möguleg vistaskipti hans undanfarnar vikur og í dag heldur The Sun því fram að Crystal Palace ætli að blanda sér í baráttuna um Gylfa.

Áður hélt blaðið fram að Englandsmeistarar Leicester ætla sér að kaupa Gylfa Þór á 15 milljónir punda til að hjálpa sér við titilvörnina á næsta tímabili en Lundúnarliðið Palace vill einnig fá hann í sínar raðir.

Því er einnig haldið fram að þýska liðið Borussia Dortmund vilji fá Gylfa en fyrr á leiktíðinni var fullyrt að Dortmund væri búið að gera tilboð í Hafnfirðinginn. Þeim fréttum hafnaði Swansea.

Gylfi Þór er ekki bara eftirsóttur á Englandi og í Þýskalandi samkvæmt frétt The Sun því ítalska liðið Fiorentina er einnig sagt áhugsamt um íslenska landsliðsmaninn sem er búinn að skora 18 mörk í 68 leikjum fyrir Swansea síðan hann gekk aftur í raðir liðsins fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×