Alþýðufylkingin boðar til opins fundar um komandi kosningar til Alþingis þann 25. maí næstkomandi.
Hann verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 í Reykjavík. Á fundinum verða lögð drög að kosningastefnuskrá flokksins og hafinn undirbúningur fyrir kosningar til Alþingis sem verða að öllum líkindum í haust. Fyrirhugaðar kosningar áttu eins og kunnugt er að vera á næsta ári en hefur verið flýtt eins og boðað var þegar ný ríkisstjórn var mynduð fyrr á árinu.
Allir eru boðnir velkomnir á fundinn nema „auðvaldið“ eins og segir í fundarboðun fylkingarinnar:
„Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið.“
Formaður Alþýðufylkingarinnar er Þorvaldur Þorvaldsson. Flokkurinn bauð fram lista í alþingiskosningunum árið 2013 og fékk hann þá 0,04 prósent atkvæða. Það voru í heildina 118 atkvæði. Því fékk flokkurinn að sjálfsögðu ekki mann kjörinn á Alþingi. Þrátt fyrir það sögðust félagsmenn stefna á áframhaldandi samstarf. Bauð flokkurinn aftur fram í sveitarstjórnarkosningum árið eftir og leiddi formaðurinn listann. Hlaut flokkurinn 0,4 prósent atkvæða að lokum í þeim kosningum.
