Enski boltinn

Nasri: Ég fór til City því það er betra lið en Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Samir Nasri er ánægður hjá City.
Samir Nasri er ánægður hjá City. vírir/getty
Samir Nasri, leikmaður Manchester City, er ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum Arsenal eftir að hann skipti frá Lundúnum til Manchester árið 2011.

Stuðningsmenn Arsenal láta hann alltaf heyra það þegar liðin mætast. Honum finnst leiðinlegt hvernig komið er fram við hann en Nasri getur hlegið að þessu í dag, að eigin sögn.

Nasri var fastamaður í liði Arsenal og vinsæll hjá stuðningsmönnum þess en þeir voru fljótir að hætta að elska hann og snöggir að byrja að hata hann þegar Nasri fór til City sumarið 2011. Vildu flestir meina að hann væri bara að elta aurinn.

Nasri varð Englandsmeistari á sinni fyrstu leiktíð með Manchester City og lætur hróp og köll sinna fyrrverandi aðdáenda ekki hafa áhrif á sig í dag.

„Manchester City var betra lið en Arsenal. Þess vegna fór ég þangað. Þetta snerist um metnað en ekki peninga,“ segir Nasri í viðtali við fótboltavefinn Goal.com.

„Hvort sem þú ert stuðningsmaður eða ekki þarftu að skilja að ef stærra fyrirtæki hringir í þig ertu metnaðarfullur ef þú ferð þangað.“

„Ég elskaði Arsenal því stuðningsmennirnir komu alltaf frábærlega fram við mig en svo sá ég alla reiðina í minn garð og þá varð ég frekar reiður líka. Ég gerði ekkert rangt en samt hættu allir að elska mig og byrjuðu að hata mig.“

„Þetta er sorglegt því ég átti þrjú ótrúleg ár hjá Arsenal. Það keypti mig frá Marseille og Arsene Wenger var mér sem faðir. Hann gerði allt fyrir mig. Ég á í góðu sambandi við Wenger en það er leiðinlegt að hugsa til þess hversu slæmt samband mitt er við félagið sjálft í dag,“ segir Samir Sasri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×